Óvenjufá banaslys í ár

Þrír hafa látist í bílslysum á Íslandi það sem af …
Þrír hafa látist í bílslysum á Íslandi það sem af er ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrír hafa látist í umferðarslysum það sem af er ári og er það töluvert minna en undanfarin ár. Frá aldamótum til ársloka í fyrra dóu 338 í bílslysum á Íslandi, eða að meðaltali 18,8 á ári. Í fyrra létust 15, þar af þrír í janúarmánuði einum.

Því er ljóst að um töluvert frávik er að ræða í ár, en aðeins einu sinni á bílaöld hafa álíka fáir látist í umferðinni. Það var árið 2014 þegar fjórir létust.

Samgöngustofa hefur útbúið nákvæma greiningu á bílslysum fyrstu fimm mánaða ársins og má nálgast slysatölur hér. Í samtali við mbl.is segir Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri stofnunarinnar, að þótt jákvætt sé að banaslys séu jafn fá og raun ber vitni, sé verra að alvarleg slys standi nokkurn veginn í stað frá fyrra ári. 67 slösuðust alvarlega í umferðinni á fyrstu fimm mánuðum ársins, samanborið við 69 á sama tímabili árið áður og 62 árið 2017. 

Banaslysum hefur fækkað jafnt og þétt síðustu áratugina, eins og sjá má á kortinu að ofan, en svo virðist sem alvarleg slys standi í stað. Hefur því verið haldið fram að skýringuna sé meðal annars að finna í öruggari bílum, sem verði til þess að menn komist nú lífs af, með alvarlega áverka, úr slysum sem áður hefðu verið banvæn.

Þórhildur segir erfitt að draga ályktanir af fáum banaslysum það sem af er ári. Fjöldi banaslysa sé það lágur að dreifnin er mikil, þ.e. fjöldinn sveiflast nokkuð á milli ára. „Við sáum til dæmis óvenjufá banaslys árið 2014 [þegar fjórir létust] og vonuðum að það hefði einhverja þýðingu fyrir framtíðina,“ segir Þórhildur. Næstu ár á eftir hafi hins vegar álíka margir látist og fyrri ár.

mbl.is/Kort

Sem fyrr segir hafa að meðaltali 18,8 látið lífið í bílslysum á ári, það sem af er öldinni. Markmið stjórnvalda kveða á um að Ísland verði á meðal þeirra landa þar sem fæstir deyja í umferðinni miðað við höfðatölu. Þann lista toppa Norðmenn en 108 létust í umferðarslysum þar í landi í fyrra, og 106 árið áður. Jafngildir það því að sjö dæju á Íslandi, sem er töluvert undir meðaltali síðustu ára á Íslandi en gæti náðst í ár.

Ungir ökumenn betri en áður

Þórhildur segir ýmis jákvæð teikn á lofti í umferðarþróun. Nefnir hún sérstaklega fækkun alvarlegra umferðarslysa þar sem ungir ökumenn eiga í hlut. Fyrstu fimm mánuði ársins hafi slík slys verið fjögur, en þau voru átta á sama tíma í fyrra, og 26 fyrstu fimm mánuði ársins 2008 svo ýkt dæmi sé valið.

Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu.
Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu. Ljósmynd/Samgöngustofa

Segir Þórhildur að nú sé þjóðin að uppskera vegna þess aukna krafts sem lagður hefur verið í fræðslu ungra ökumanna, jafnvel löngu áður en þeir fá bílpróf. Þau, sem nú fá bílpróf, hafi fengið umferðarfræðslu frá unga aldri til dæmis í formi bóka fræðsluefnis frá Samgöngustofu sem send eru öllum grunnskólabörnum. Þá hafi ökuskóli 3, þar sem ökumenn fá að reyna sig við krefjandi aðstæður, verið kærkomin viðbót við ökunámið. 

Eins eru alvarleg slys, sem rekja má til áfengis- og fíkniefnaaksturs, mun færri í ár en undanfarið. Á fyrstu fimm mánuðum ársins var ekkert alvarlegt slys rakið til fíkniefnaaksturs og aðeins eitt vegna ölvunaraksturs, samanborið við fimm og átta á sama tíma í fyrra.

Slysin séu betri mælikvarði á tíðni ölvunar- og fíkniefnaaksturs en tölur um hve marga lögregla stendur að verki, enda ráðist þær af eftirliti á hverjum tíma.

Flest slys af mannavöldum

Þórhildur segir mikilvægt að hafa í huga að langflest umferðarslys megi rekja til mannlegra mistaka, sem oft og tíðum megi koma í veg fyrir með varfærnara aksturslagi. Mikilvægt sé að haga akstri eftir aðstæðum og fylgja hraðatakmörkunum. Þá bendir hún á að oft sé lítill ávinningur af því að keyra of hratt; aðeins þremur mínútum munar til að mynda á ferðalagi milli Reykjavíkur og Selfoss eftir því hvort ekið er á 90 eða 100 kílómetra hraða, þegar komið er út fyrir borgarmörkin.

Töluverð fækkun hefur orðið á slysum vegna framanákeyrslu, sem oftast stafar af misheppnuðum tilraunum til að taka fram úr öðrum bílum. Eftir stendur að mikið er um aftanákeyrslur, en þeim mætti fækka með því að huga betur að bili á milli bíla. Miðað er við að bil á milli bíla jafngildi um 4-5 sekúndum í akstri, en það eru 100-125 metrar ef keyrt er á 90. 100 metrar jafngilda bilinu á milli tveggja stika á þjóðvegum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert