Engar nýjar upplýsingar til grundvallar

Icelandair tilkynnti í kvöld að ekki yrði gert ráð fyrir …
Icelandair tilkynnti í kvöld að ekki yrði gert ráð fyrir Boeing MAX-þotum félagsins í flugáætlun þess út árið. mbl.is/Árni Sæberg

„Það eru engar nýjar upplýsingar sem liggja fyrir. Um er að ræða yfirgripsmikið og flókið ferli sem stýrt er af alþjóða flugmálayfirvöldum og snýst um að tryggja öryggi vélanna og koma þeim aftur í rekstur. Það er einfaldlega að taka lengri tíma en við héldum upphaflega og því erum við að uppfæra þær tímalínur sem við erum að vinna eftir,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir upplýsingafulltrúi Icelandair í samtali við mbl.is.

Flugfélagið tilkynnti í kvöld að ekki yrði gert ráð fyrir Boeing MAX-þotum félagsins í flugáætlun þess út árið. Í gær sagði Bogi Nils Bogason forstjóri félagsins í samtali við Ríkisútvarpið að hann gerði ekki ráð fyrir þotunum í rekstri út október.

Ekkert hefur breyst varðandi MAX-vélarnar síðan þá, en lokaákvarðanir hafa verið teknar um vetraráætlunina, segir Ásdís.

Hún segir að forstjóri félags sem skráð er á hlutabréfamarkaði geti ekki tjáð sig með öðrum hætti en félagið hafi gefið formlega út. Lokaákvörðun um að gera ekki ráð fyrir MAX-vélunum út árið var tekin í dag og tilkynning gefin út í kjölfarið.

mbl.is