Jóhannes Þór misskilji tölurnar

Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, segir að Jóhannes Þór Skúlason hafi …
Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, segir að Jóhannes Þór Skúlason hafi lagt ranglega út frá könnun ASÍ um brotastarfsemi á vinnumarkaði. mbl.is/​Hari

Flosi Eiríksson framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins fagnar því að Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar ætli að leggja lóð sín á vogarskálarnar með stéttarfélögum landsins í baráttunni gegn launaþjófnaði í ferðaþjónustu, en segir hann þó leggja rangt út frá könnun ASÍ um brotastarfsemi á vinnumarkaði sem hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarna daga.

„Hann aðeins misskilur tölur og mig langar bara að leiðrétta þær,“ segir Flosi í samtali við mbl.is, en í gær sagði Jóhannes Þór í samtali við mbl.is að fyrst einungis 220 einstaklingar af þeim 35 þúsund sem starfa í ferðaþjónustunni væru að kvarta væri ljóst að hlutfallslega væri það afar lítill hluti sem teldi á sér brotið. Þarna fullyrti Jóhannes þó full djarflega, segir Flosi, enda byggðist skýrslan einungis á gögnum frá fjórum stéttarfélögum.

„Hann fer yfir það þarna í þessu viðtali í gær að þetta sé bara eitthvað ákveðið hlutfall, en í rannsókninni á þessum launakröfum þá eru gögn frá fjórum stéttarfélögum. Það eru engar upplýsingar inni í skýrslunni frá Suðurnesjunum, ekki frá Austurlandi, ekki frá Norðausturlandi, ekki frá Vestfjörðum eða Vesturlandi, þannig að þegar Jóhannes segir að þetta séu „bara“ 220 kröfur þá er hann að rugla saman, því þetta er úrtak. Við fengum kröfur frá þremur stéttarfélögum í SGS af nítján. Ef ég ætlaði að reikna þetta eins og hann, þá gæti ég fabúlerað mig upp í mjög háar tölur,“ segir Flosi.

Hann segir það koma skýrt fram í skýrslunni að um úrtakskönnun sé að ræða og að einnig komi skýrt fram að ekki sé um að ræða kröfur sem eru vegna gjaldþrota fyrirtækja.

„Þetta eru bara virkar kröfur sem við sækjum og meirihluti krafna er afgreiddur löngu áður en kemur í kröfuferlið. Þannig að þegar hann segir að 99,4% hafi ekki yfir neinu að kvarta, þá er það brjálæðislega ónákvæm meðferð á tölum,“ segir Flosi.

Meirihluti að standa sig en svindl þó til staðar

„En það er rétt, meirihlutinn er að standa sig eins og hann á að standa sig, en það gerir það ekkert betra að svindla á minnihlutanum. Það er ekkert betra að brjóta réttinn á fáum. Og þeir sem atvinnurekendur eru alltaf að brjóta réttinn á eru útlendingar, ungt fólk og láglaunafólkið, eins og kemur fram í skýrslunni líka. En ég var aðallega ósáttur með hann hefði misst af því að þetta væri úrtakskönnun,“ segir Flosi.

Hann segir að lokum að Jóhannes „ætti að anda djúpt“ og þeir báðir að hætta að „skiptast á skeytum í gegnum Morgunblaðið“ og „vinna saman að því að koma í veg fyrir launaþjófnað í ferðaþjónustu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina