Penninn oftast með lægsta verðið

Þegar afslátturinn hjá A4 er ekki tekinn með inn í …
Þegar afslátturinn hjá A4 er ekki tekinn með inn í myndina var Penninn Eymundsson oftast með lægsta verðið eða í 37 tilfellum af 52. mbl.is/Árni Sæberg

Penninn Eymundsson var oftast með lægsta verðið á nýjum námsbókum fyrir framhaldsskóla, samkvæmt verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ sem framkvæmd var í gær. A4 var reyndar með 25% afslátt á öllum námsbókum í gær og sé hann tekinn með í reikninginn var lægsta verðið oftast hjá A4, en fram kemur í tilkynningu frá ASÍ að afslátturinn hafi einungis gilt þennan eina dag.

Algengast var að munur á hæsta og lægsta verði bókanna næmi 20-30% eða á milli 1-2.000 kr. Mál og menning var oftast með hæsta verðið og einnig voru fæstir titlar fáanlegir í þeirri verslun.

Verðlagseftirlit ASÍ hvetur neytendur til að vera vakandi yfir almennum verðbreytingum og tilboðum á skólabókum, þar sem verðbreytingar eru mjög örar á þessum árstíma.

Þegar afslátturinn hjá A4 er ekki tekinn með inn í myndina var Penninn Eymundsson oftast með lægsta verðið, eða í 37 tilfellum af 52. Iðnú var næstoftast með lægsta verðið, eða í 8 tilfellum af 52.

Mál og menning var oftast með hæsta verðið, í 14 tilfellum, og einnig með minnsta framboðið af bókum, en aðeins 24 titlar voru til af þeim 52 sem voru til skoðunar í könnuninni. Iðnú var næstoftast með hæsta verðið, eða í 13 tilfellum. Flestir titlarnir voru til hjá Pennanum Eymundsson, eða 48 af 52, og næstmesta framboðið af nýjum námsbókum mátti finna hjá A4, 45 titla af 52.

Í flestum tilfellum, eða í 25 af 52, var munur á hæsta og lægsta verði á nýjum námsbókum 20-30%, í 6 tilfellum var verðmunurinn 30-40%, í 15 tilfellum undir 20% og í 6 tilfellum yfir 40%.

Mestur munur á Gísla sögu Súrssonar

Mestur var verðmunurinn 73,6% á Gísla sögu Súrssonar, lægsta verðið var hjá Pennanum 2.299 kr. en hæst var það hjá Máli og menningu, 3.990 kr.

Mesti verðmunur í krónum talið var 2.500 kr. á bókinni Góð næring, betri árangur. Lægsta verðið var í Pennanum Eymundsson 4.999 kr. en hæsta hjá Máli og Menningu 7.499 kr.  

Af öðrum kennslubókum má nefna að 49,8% verðmunur var á bókinni Tölfræði og líkindareikningur, sem kostaði mest 5.990 kr. hjá Heimkaup en minnst í Pennanum Eymundsson 3.999 kr. sem gerir 1.991 kr. verðmun.

Verð á nýjum bókum var kannað í eftirtöldum verslunum: A4 Skeifunni, Heimkaup.is, Bókabúðinni Iðnú Brautarholti, Pennanum Eymundsson Smáralind og Forlaginu Fiskislóð.

Verðlagseftirlit ASÍ minnir á að aðeins er um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði, úrval eða þjónustu söluaðila. Einnig má taka fram að verð breytist mjög ört á þessum tíma í verslunum landsins vegna ýmiss konar tilboða sem verslanir bjóða upp á fyrir skólafólkið sem er í óðaönn að verða sér út um bækur fyrir komandi misseri.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert