Verðið oftast lægst hjá A4

Verð á notuðum námsbókum fyrir framhaldsskólanema voru oftast lægst í A4 samkvæmt nýrri könnun verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands sem framkvæmd var 15. ágúst. Þannig var A4 með lægstu verðin í 23 tilfellum af 42, Penninn Eymundsson í 12 tilvikum og Heimkaup.is í sex tilvikum að því er segir í fréttatilkynningu.

„Mikill verðmunur er á nýjum og notuðum bókum og geta framhaldsskólanemendur sparað sér skildinginn með því að taka notað fram yfir nýtt. Verðlagseftirlitið getur ekki birt innkaupsverð skiptibókamarkaðanna á notuðum bókum eins og það hefur gert undanfarin ár og skoðað mun á innkaupsverði og útsöluverði þar sem þau eru ekki lengur aðgengileg almenningi. Þetta gerir samanburð á innkaupsverði milli skiptibókamarkaða erfiðan og hamlar eðlilegri samkeppni,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Þar segir að algengur verðmunur á notuðum bókum hafi verið í kringum eitt þúsund krónur. Mestur var verðmunurinn á bókinni Þjálfun, heilsa og vellíðan, eða 190% eða 2.950 kr. Lægsta verðið mátti finna í A4, 1.549 kr. en það hæsta í Pennanum Eymundsson 4.499 kr. Mesta úrvalið af notuðum námsbókum var í A4 en þar mátti finna alla þá titla sem til skoðunar voru eða 41. Í Pennanum mátti finna 37 titla af 41 en einungis 11 á Heimkaup.is.

„Rétt er að taka fram að ástand notaðra bóka getur verið mjög misjafnt. Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði, úrval eða þjónustu söluaðila. Einnig má taka fram að verð breytist mjög ört á þessum tíma í verslunum landsins vegna tíðra verðbreytinga og ýmiskonar tilboða.“

mbl.is