Jepplingur valt á Suðurlandsvegi

Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild Landspítalans til aðhlynningar.
Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild Landspítalans til aðhlynningar. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Jepplingur valt á Suðurlandsvegi við Rauðhóla á níunda tímanum í kvöld. Sjúkrabíll, lögregla og slökkvilið fóru á staðinn og ökumaðurinn, sem var einn í bílnum, var fluttur til á sjúkrahús til aðhlynningar.

Bíllinn hafði hafnað á ljósastaur eftir að hafa farið nokkrar veltur.

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu er ökumaðurinn slasaður en ekki er vitað meira um líðan hans að svo komnu. Búið var að koma honum út úr bílnum og inn í sjúkrabíl áður en dælubíll slökkviliðs kom á vettvang.

Vísir greindi frá. Þar er slysið sagt hafa orðið við Rauðavatn en hið rétta er að það varð skammt frá Rauðhólum, samkvæmt því sem kom fram í samtali mbl.is við slökkvilið.

Suðurlandsvegur var lokaður í stutta stund á meðan viðbragðsaðilar athöfnuðu sig á svæðinu en hann hefur verið opnaður á ný. Nokkur örtröð myndaðist meðan á lokuninni stóð.

mbl.is