Tvö tonn á tveimur tímum

Marglytturnar og Blái herinn ásamt forsetanum.
Marglytturnar og Blái herinn ásamt forsetanum. Ljósmynd/Aðsend

Sundhópurinn Marglytturnar, Blái herinn og hópur sjálfboðaliða, alls um sextíu manns, tíndu upp um tvö tonn af rusli í Mölvík við Grindavík í kvöld.

Soffía Sigurgeirsdóttir, ein af Marglyttunum, segir árangurinn mjög góðan miðað við aðeins tveggja tíma verk. „Þessi fjara var hreinsuð fyrir tæplega fjórum árum síðan. Þá var nánast eins og hún hefði verið ryksuguð en þrátt fyrir það náðum við að taka saman tvö tonn,” segir hún og nefnir að ýmsu úr sjávarútveginum skoli á land í fjörunni ásamt skothylkjum, brotnum leirdúfum og eyrnatöppum frá skotveiðimönnum. Mest hafi verið um plast og veiðafæri í fjörunni. 

Marglytturnar ásamt forseta Íslands í kvöld.
Marglytturnar ásamt forseta Íslands í kvöld. Ljósmynd/Aðsend

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tók þátt í hreinsuninni og stóð hann sig gríðarlega vel að sögn Soffíu, enda mikill umhverfisverndarsinni. „Það er virkilega ánægjulegt að hann hafi lagt þessu lið. Þetta er svo brýnt fyrir okkur. Við viljum hafa Ísland hreint og sjóinn hreinan svo að bæði við sjósundsfólkið og fiskarnir geti synt í hreinum sjó og að við getum borðað hreinan fisk en ekki mengaðan af plasti.”

Marglytturnar synda boðsund yfir Ermarsundið í byrjun september til að vekja athygli á plastmengun í hafi og safna um leið áheitum fyrir Bláa herinn. Hægt er að styrkja verkefnið í gegnum Aur-appið en símanúmerið er 788-9966.

„Við vonum að landsmenn styrki Bláa herinn í gegnum okkur. Hann hefur starfað við strandshreinsun í 24 ár og það er gríðarlega þarft verk að halda honum gangandi,” segir Soffía.

Marglytturnar í sjósundgallanum.
Marglytturnar í sjósundgallanum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert