500 kílómetra upphitun fyrir maraþon

Einar Hansberg Árnason við Laugardalshöll í dag.
Einar Hansberg Árnason við Laugardalshöll í dag. mbl.is/Arnþór

Einar Hansberg Árnason lauk í dag hringferð um landið, þar sem markmiðið er að vekja athygli á þeim fjölda barna sem verða fyrir ofbeldi ár hvert. Einar hefur lagt að baki um 500 kílómetra, til skiptis á hjóli, róðravél og skíðatæki. Alls fór Einar 13.000 metra í hverju af þeim 37 sveitarfélögum þar sem hann kom við. Talan 13.000 er táknræn, en það er sá fjöldi barna sem talið er að hafi orðið fyrir líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi á Íslandi, um fimmtungur allra barna.

Á ferð sinni um landið safnaði hann undirskriftum undir yfirlýsingu Unicef þar sem skorað er á stjórnvöld að taka upp skýrari verklagsáætlun þegar upp kemst um ofbeldi. „Þetta virðist hafa gleymst hjá stjórnvöldum.“

Hann segist hafa fengið hugmyndina að verkefninu þegar hann sá auglýsingu frá Unicef um þann uggvænlega fjölda, en hann lagði í hann síðasta föstudag.

Hleypur heilt maraþon í fyrsta sinn

Einar hefur þó ekki lokið sér af, því þegar blaðamaður náði tali af honum var hann í Laugardalshöll að sækja keppnisgögn fyrir Reykjavíkurmaraþonið sem fram fer á morgun, menningarnótt. Til stendur að hlaupa heilt maraþon og safna um leið áheitum fyrir Unicef sem nýtast mun börnum hérlendis.

Aðspurður segir Einar að maraþonið leggist vel í hann þrátt fyrir að hafa ekki fengið mikla hvíld að undanförnu. „Ég hef reyndar aldrei áður hlaupið maraþon svo við getum ekki búist við að ég slái nein met. En markmiðið er að komast í mark,“ segir Einar, sem hefur aldrei hlaupið lengra en 13 kílómetra í einu.

Hægt er að heita á Einar hér og taka þátt í undirskriftasöfnuninni Stöðvum feluleikinn hér.

Einar á hjólinu.
Einar á hjólinu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert