Kæra niðurfellingar til Mannréttindadómstóls

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, á kynningunni í gær. Árið 2018 …
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, á kynningunni í gær. Árið 2018 leituðu um 250 konur til Stígamóta vegna nauðgana. mbl.is/Árni Sæberg

Stígamót eru um þessar mundir að safna saman málum kvenna sem eiga það sameiginlegt að dómstólar og saksóknarar hér á landi hafa felld kynferðisbrotamál þeirra niður. Málin hyggjast Stígamót svo  kæra til Mannréttindadómstóls Evrópu. Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir í samtali við mbl.is niðurfellingarhlutfall í nauðgunarmálum vera óeðlilegt og því þurfi að skoða hvort konurnar fái réttláta málsmeðferð. Fyrst var greint var málinu í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Sex konur þegar hafa samþykkt að kæra niðurfellingu sinna mála. „Við gætum fengið hundruð kvenna til að taka þátt í þessar aðgerð ef það væri ekki naumur tímarammi,“ segir Guðrún. Ekki mega hafa liðið meira en sex mánuðir frá því að saksóknari hefur fellt málið niður og konurnar fullnýtt kærurétt sinn hér á landi.

„Það þrengir hópinn okkar,“ segir hún og kveður Stígamót hvetja konur sem þetta eigi við um að hafa samband.

Árið 2018 leituðu um 250 konur til Stígamóta vegna nauðgana, til viðbótar þeim fjölda kvenna sem leitaði til samtakanna vegna annarra ofbeldisbrota. Þegar horft er til þess að ekki féllu nema 6,75 héraðsdómar í nauðgunarmálum að meðaltali síðustu 20 ár sést að misvægið er mikið.

Guðrún bendir á að af þeim sem leita til Stígamóta kæri um 10% brot gegn sér og af þeim leiðir kæran ekki til dóms í nema um 11% tilfella.

„Það þýðir að 89% af þeim konum sem leggja þetta á sig eru léttvægar fundnar,“ segir Guðrún og kveður slíkt ekki vera ásættanlegt. „Þó staðan sé skárri en í mörgum löndum í kringum okkur þá gerir það hana ekkert skárri til að lifa með. Það er okkar hlutverk að  veita stjórnvöldum aðhald og þetta er ein leið sem við getum farið til þess.“

mbl.is