Farþegavél snúið við vegna bilunar

Flugleið farþegaflugvélarinnar sem snúið var við skömmu eftir hádegi.
Flugleið farþegaflugvélarinnar sem snúið var við skömmu eftir hádegi. Skjáskot/FlightRadar24.com

Snúa þurfti farþegaflugvél United Airlines af gerðinni Boeing 757-244 við skömmu eftir flugtak frá Keflavíkurflugvelli nú eftir hádegi vegna vélarbilunar. Vélin var á leið til New Jersey í Bandaríkjunum með 178 farþega um borð. Vélin lenti vandkvæðalaust á Keflavíkurflugvelli fyrir nokkrum mínútum síðan.

„Vélin lagði af stað frá Keflavík klukkan rétt rúmlega tólf með 178 manns um borð. Þegar hún var komin af stað óskaði flugstjóri eftir því að fá að snúa til baka og lenda í Keflavík vegna einhverra vandkvæða með vél,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia.

„Þá virkjast ákveðið kerfi þannig viðbragðsaðilar á svæðinu eru viðbúnir, þ.e. slökkvilið, sjúkralið, lögregla og björgunarsveitir, í samræmi við flugslysaáætlun almannavarna. Þetta eru eðlileg viðbrögð þegar tilkynning sem þessi kemur,“ segir hann. 

Uppfært kl. 13.35:

Bilun í hreyfli

Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um hættustig á flugvellinum. Greint var frá því að um bilun í hreyfli hafi verið að ræða og að flugvélin hafi þurft að snúa við úti á Faxaflóa.

Allir tiltækir sjúkrabílar voru sendir á biðsvæði í Straumsvík og þegar þeir voru komnir þangað var hættuástandinu aflýst eftir að flugvélin hafði lent heilu og höldnu.

Uppfært kl. 13.51

Viðbragðshópur Rauða krossins á Íslandi hefur verið sendur á Keflavíkurflugvöll til að veita farþegum flugvélar United Airlines sálrænan stuðning. „Í slíkum aðstæðum verður gjarnan uppnám meðal farþega og því gott að tala við vel þjálfaða sjálfboðaliða,“ segir í tilkynningu frá Rauða krossinum. Þá verða farþegum veittar upplýsingar um hvert þeir geti snúið sér, geri vanlíðan vart við sig síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert