Einni álmu lokað í Ártúnsskóla vegna raka og myglu

Ein álma Ártúnsskóla er lokuð.
Ein álma Ártúnsskóla er lokuð. Ljósmynd/Aðsend

Raka- og mygluskemmdir reyndust í þaki í einni álmu Ártúnsskóla. Unnið er að því að rífa klæðningu og þétta þakið. Álmunni sem er með fjórum kennslustofum er lokað á meðan. Rúmlega 70 nemendum hefur verið komið fyrir annars staðar í húsnæði skólans á meðan. 

Framkvæmdirnar hófust 10. ágúst og er áætlað að þeim ljúki um mánaðamótin september-október. Unnið er að viðgerðunum innan frá.  

„Þetta er ekki skemmtileg staða. Við ákváðum að leysa þetta með þessum hætti og fórum í að endurskipuleggja skólahaldið,“ segir Rannveig Andrésdóttir, skólastjóri Ártúnsskóla. Bókasafn og sérgreinastofur eru meðal annars nýtt til kennslu og nánast hver „lófastór blettur“ er notaður. 

Skólastjórnendur töldu ekki fýsilegt að flytja nemendur í aðra skóla á meðan í svo stuttan tíma með tilheyrandi raski. „Með góðum vilja gengur þetta tímabundið,“ segir Rannveig. 

Furðar sig á seinaganginum

Engar framkvæmdir eru núna í augnablikinu því beðið er eftir efni, segir hún spurð um gang mála. Rannveig furðar sig á seinaganginum því framkvæmdir hófust skömmu áður en kennsla hófst á ný, þ.e. 10. ágúst. „Það kemur sér mjög illa að ekki hafi verið farið í þetta á sumarleyfistíma þegar enginn var í húsinu,“ segir hún.

Sýni voru tekin í vor sem leiddu þetta í ljós. Fyrir 10 dögum voru einnig sýni tekin en niðurstaða þeirra liggur ekki fyrir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert