Frítt í strætó frekar en seinkun

Tæplega kemur til greina að seinka dagskrá framhaldsskóla til að liðka fyrir umferð að sögn Ársæls Guðmundssonar, skólameistara Borgarholtsskóla, en þá yrðu nemendur til klukkan sjö eða átta á kvöldin í skólanum. Nær væri að gera strætóferðir framhaldsskólanema gjaldfrjálsar.

Í myndskeiðinu er rætt við Ársæl og kíkt á bílastæðið í Borgarholtsskóla.

Sú hugmynd hefur verið reifuð að breyta því hvenær nemendur í menntakerfinu mæta í skólann á morgnana til að greiða fyrir samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Nú síðast af Sigurði Inga Jóhannssyni, samgönguráðherra í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Ársæll, sem einnig situr í stjórn Skólameistarafélags Íslands, segir að hugmyndin um að seinka dagskrá nemenda hafi oft verið rædd innan félagsins en þá á grundvelli svefnrannsókna og heilsufarssjónarmiða. Hinsvegar hafi hún aldrei náð lengra þar sem dagskrá skólanna sé þétt skipuð fyrir og ekki sé talið vænlegt að halda nemendum svo langt fram á kvöld í skóla.

Sé vilji til að fækka ökutækjum á götunum væri nær að gera strætóferðir nemendanna fríar og og bæta leiðarkerfið sem sé ekki nægilega gott úr sumum hverfum borgarinnar. Borgarholtsskóli einn og sér sé fimmtánhundruð manna vinnustaður og þar sem fjölmargir komi akandi til starfa á hverjum morgni væri mikið hagræði af því að fjölga þeim sem nýttu sér almenningssamgöngur til þess.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert