309 þúsund ökutæki í umferð

Ökutækjafloti Íslendinga hefur vaxið að meðaltali um 4% milli ára allt frá árinu 1995. Ökutækjum, þ.e. bifreiðum og bifhjólum sem heimilað er að aka á vegum, hefur þar með fjölgað úr 132 þúsund í 309 þúsund. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands. Þar kemur fram að flestir eru á bensínknúnum bifreiðum. 

Smávægileg fækkun varð fyrstu tvö árin eftir hrunið en vöxturinn náði sér aftur á strik árið 2015. Ef ökutækjum er skipt niður eftir umráðanda er hlutur heimila langstærstur. Hlutfall heimila af heildarbílaflotanum hefur hins vegar lækkað úr 89,6% árið 1995 í 74,3% árið 2016. Mikill vöxtur var frá árinu 2011 til 2018 í fjölda skráðra bifreiða hjá fyrirtækjum í leigustarfsemi (að mestu bílaleigubílar). Þessi starfsemi var skráð með um 9,8% af öllum ökutækjum árið 2017, þegar fjöldinn náði hámarki.

Stærsti hluti ökutækja á heimilum er knúinn með bensíni. Fjöldi þeirra hefur lítið breyst frá árinu 2007, á meðan ökutækjum sem knúin eru með dísel, eða öðru eldsneyti, hefur fjölgað. Hjá fyrirtækjum í öðrum atvinnugreinum en leigustarfsemi fór fjöldi díselknúinna ökutækja fram úr fjölda bensínknúinna árið 2007. Bensínknúnum ökutækjum fækkaði til ársins 2015 en fleiri díselknúin ökutæki bættust í bílaflotann. Hlutfall rafknúinna ökutækja og tvinnbíla með hleðslugetu var vart marktækt af heildinni fyrr en árið 2018, en þá voru skráð 7.445 þannig ökutæki, eða 2,4% af bílaflotanum í heild. Stærstur hluti þeirra var skráður á heimili.

Ökutækjum sem skráð voru á heimili hefur fjölgað frá 1995 til ársins 2018. Þetta þýðir að fjögun ökutækja er umfram fólksfjölgun í landinu.

Miðgildi á akstri heimilisbíla er svipað eða lægra en miðgildi aksturs flestra atvinnugreina. Ökutæki í sumum atvinnugreinum eru einnig umtalsvert þyngri en hjá heimilum og eyða því meira eldsneyti á hvern ekinn kílómetra. Af þessu leiðir að þrátt fyrir að 74,3% ökutækja séu skráð á heimili nam eldsneytisnotkun þeirra aðeins 58% af heildareldsneytisnotkun bílaflotans.

Sjá nánar hér

mbl.is