Hótaði að svipta sig lífi

Maður sem hótaði að svipta sig lífi í nótt er vistaður í fangageymslu lögreglunnar þangað til af honum rennur víman og hægt er að fara með hann í viðtal á geðdeild Landspítalans. Þegar lögregla kom á vettvang á þriðja tímanum í nótt var hann vopnaður hnífi og hótaði að beita honum.

Lögreglan handtók mann í Grafarvoginum skömmu eftir miðnætti vegna líkamsárásar og hótana. Sá sem varð fyrir árásinni er með minniháttar áverka en árásarmaðurinn gistir fangageymslu lögreglunnar.

Tilkynnt var til lögreglu um grunsamlegar mannaferðir við Krónuna í Garðabæ um fjögur í nótt. Að sögn lögreglu var ekkert þar að sjá þegar hún kom á vettvang.

Fyrr um nóttina hafði verið tilkynnt um þrjá menn vera að stela úr garði í Kópavogi. Þegar lögreglan kom á vettvang voru þeir farnir á brott og ekki vitað hverju þeir stálu.

Maður sem var handtekinn í Skeifunni í nótt vegna þess í hversu annarlegu ástandi hann var gistir fangageymslur þangað til af honum rennur og síðan var lögreglan kölluð út vegna ölvunarástands annars manns en það mál var afgreitt á vettvangi. Tilkynning barst um mann liggjandi í götunni í miðborginni en hann var farinn þegar lögregla kom á vettvang. 

Tveir ökumenn, karl og kona, voru stöðvaðir um miðnætti og reyndust þau bæði vera án ökuréttinda. Hann hafði aldrei öðlast réttindin en hún hafði verið svipt þeim. Hún reyndist einnig vera undir áhrifum fíkniefna við aksturinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert