Pence gistir á hóteli Trumps

Írski forsætisráðherrann Leo Varadkar og varaforsetinn Mike Pence takast í …
Írski forsætisráðherrann Leo Varadkar og varaforsetinn Mike Pence takast í hendur í Dyflinni í dag. Pence var greinilega hress þrátt fyrir flugferð morgunsins. AFP

Varaforseti Bandaríkjanna og verðandi Íslandsfarinn Mike Pence valdi að gista á golfhóteli Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í Doonbeg á Írlandi meðan á Írlandsdvöl hans stendur. Væri þetta ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að Pence þarf að fljúga um 100 mílna leið frá Doonbeg til Dublin, þar sem hann átti fundi við ýmsa ráðamenn og viðskiptajöfra í dag.

Gisti hann í Doonbeg í nótt, flaug til Dyflinnar í morgun og er svo ráðgert að hann fljúgi til baka í enda dags, að því er fram kemur á vef Markets Insider. Segir þar enn fremur að náttstaðurinn hafi verið valinn að tillögu Trumps sjálfs. Samkvæmt áætlun mun Pence svo snæða kvöldverð á veitingastað í eigu fjarskylds ættingja. Á varaforsetinn að hafa unnið á bar veitingastaðarins þegar hann sótti Írland í fyrsta skipti heim á níunda áratug síðustu aldar.

Trump sagður hagnast á embættinu

Trump gisti sjálfur í Doonbeg þegar hann heimsótti Írland og Frakkland í júní. Hann hefur verið sakaður um að skara eld að eigin köku með því að koma persónulegum fyrirtækjum sínum á framfæri og að hafa grætt fjárhagslega á forsetaembættinu með því að rukka fylgdarlið sitt fyrir að gista á stöðum hans. Þá hefur hann einnig verið gagnrýndur fyrir að þiggja greiðslur frá erlendum embættismönnum sem gista á hótelum hans og er það sagt mögulegt brot á ákvæði stjórnarskrár Bandaríkjanna sem bannar forsetanum að taka við gjöfum frá erlendum stjórnvöldum.

Í forsetatíð hefur Trump eytt 227 dögum á einhverjum af …
Í forsetatíð hefur Trump eytt 227 dögum á einhverjum af golfvöllum sínum, samkvæmt CNN. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert