51% sjúklinga á Vogi háð örvandi efnum

mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Verð á amfetamíni hefur lækkað um 60% á síðustu 19 árum miðað við fast verðlag í janúar 2019. Þetta segir Þórarinn Tyrfingsson, fyrrverandi formaður SÁÁ og yfirlæknir á Vogi. Hann er einn þeirra sem hafa staðið fyrir mánaðarlegri könnun á verðlagi ólöglegra fíkniefna í um 20 ár sem lögð er fyrir sjúklinga á sjúkrahúsinu Vogi. Er þar spurt hve margir þeirra hafi keypt slík efni og hvað þeir greiddu fyrir þau.

Segir hann erfitt að segja til um hvað valdi verðlækkun efnisins en getur sér til um að auknar vinsældir kókaíns hafi áhrif á markaðinn en að hans sögn hefur kókaínneysla stóraukist á síðustu árum.

Þórarinn segir að gríðarleg fjölgun hafi orðið á síðustu árum í hópi þeirra sjúklinga á Vogi sem háðir séu örvandi fíkniefnum.

„Tölurnar segja okkur að við höfum aldrei, hvorki tölu- né hlutfallslega, fengið fleiri fíkla sem háðir eru örvandi vímuefnum síðan við byrjuðum. 51% sjúklinganna greinist með slíkan vanda,“ segir Þórarinn. Hann segir að slíkur vandi skilgreinist yfirleitt af því að vera háður amfetamíni eða öðrum skyldum efnum, kókaíni og/eða e-pillum.

Samkvæmt upplýsingum frá SÁÁ er birtingarmynd örvandi vímuefnafíknar afar alvarleg og batahorfur slíkra sjúklinga eru verri en kannabis- og áfengissjúklinga. Vandinn herjar auk þess mest á ungt fólk á aldrinum 20-39 ára.

Þórarinn segir sérstaka hættu steðja að ungu fólki sem skemmti sér um helgar og byrji að nota örvandi efni með áfengi. Segir hann að margt bendi til að sá árangur, sem hafi orðið í baráttu sveitarfélaganna gegn vímuefnanotkun ungs fólks rétt eftir aldamót, sé í hættu. Það sé algengur misskilningur að aðeins illa sett börn eða þau sem séu utangarðs leiti í vímuefni.

Þórarinn Tyrfingsson segir að gríðarleg fjölgun hafi orðið á síðustu …
Þórarinn Tyrfingsson segir að gríðarleg fjölgun hafi orðið á síðustu árum í hópi þeirra sjúklinga á Vogi sem háðir séu örvandi fíkniefnum. Ljósmynd/SÁÁ

Meðferð mikilvægasta vopnið

„Við eigum engin götubörn. Við eigum bara vel stadda framhaldsskólanema sem eru að skemmta sér í Reykjavík. Það eru þeir sem eru útsettir fyrir þessi örvandi efni,“ segir hann. „Þetta eru bara heilbrigðir krakkar sem eru að skemmta sér og búa við gott atlæti með nóg af peningum.“

Þórarinn segir að geðrænir og líkamlegir fylgikvillar fíknar í örvandi fíkniefni séu afar algengir og kalli á aukinn viðbúnað þegar í meðferð sé komið. Segir hann jafnframt áberandi að neytendur slíkra efna sæki oft í róandi og verkjadeyfandi lyf til að slá á aukaverkanir og fylgikvilla sem fylgi örvandi neyslu, svo sem svefntruflanir, kvíða og óróleika.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert