Áslaug vaxi og eflist með hverri raun

Bjarni hringdi í Áslaugu rétt fyrir fundinn klukkan fimm og …
Bjarni hringdi í Áslaugu rétt fyrir fundinn klukkan fimm og tilkynnti henni um ákvörðun sína. mbl.is/​Hari

„Frammistaða hennar í utanríkismálanefnd í orkupakkamálinu sýndi að hún getur tekist á við stór og flókin álitamál og haldið vel utan um þau. Hún hefur sömuleiðis verið formaður í fleiri en einni nefnd á þinginu og sem ritari flokksins staðið sig afskaplega vel.“

Þetta sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við mbl.is. spurður hvort frammistaða Áslaugar í utanríkismálanefnd og þinginu í orkupakkamálinu hefði haft áhrif á tillögu hans um að tilnefna hana sem dómsmálaráðherra.

„Ég myndi segja að Áslaug hefði vaxið og eflst með hverri raun. Hún gaf mjög ung kost á sér sem ritari Sjálfstæðisflokksins og heillaði landsfund upp úr skónum í mjög eftirminnilegri ræðu,“ bætti hann við.

Áslaug sem er erlendis tók þátt í fundinum í dag símleiðis. Bjarni hringdi í Áslaugu rétt fyrir fundinn klukkan fimm og tilkynnti henni ákvörðun sína.

Bjarni segir í samtali við mbl.is að hún hafi marga góða kosti til þess að verða ráðherra og sé þroskaður stjórnmálamaður miðað við aldur.

Góður ræðumaður og þroskuð fyrir ungan aldur

„Það sem allir taka eftir er að hún hefur brennandi áhuga á stjórnmálum og að láta gott af sér leiða fyrir samfélagið. Það eru hennar sterkustu kostir. Hún er spennt fyrir því að hrinda hlutum í framkvæmd og láta til sín taka,“ sagði Bjarni og bætti við:

„Hún er líka góður ræðumaður og hún er óvenju þroskuð fyrir ungan aldur þannig að hún hefur marga góða kosti til þess að verða ráðherra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina