Lenti í 150. sæti en átti að vera í 23.

Eftir að bent var á villu í útreikningum á einu …
Eftir að bent var á villu í útreikningum á einu prófi á prófsýningu inntökuprófa í læknadeild Háskóla Íslands, kom í ljós að hópur nemenda hafði ekki komist inn, sem samkvæmt niðurstöðunum átti sannarlega að komast inn. Þessir nemendur voru sumir komnir í annað nám þegar þeir fengu símtal í morgun, þar sem þeim var tilkynnt að þeir ættu vísa skólavist í læknadeild. mbl.is/Ómar

Árni Daníel Árnason lenti í 150. sæti af þeim sem tóku inntökuprófið fyrir læknisfræðinám við Háskóla Íslands í vor. Nema hvað: Hann var í raun og veru í 23. sæti af þeim sem tóku prófið. Þeim sem fóru yfir prófið varð á.

Þórður Björgvin Þórðarson lenti í 133. sæti þegar hann tók prófið í vor. Hann var að sögn vonsvikinn, taldi sig raunar hafa staðið sig betur en það en þetta virtist vera niðurstaðan. Nema hvað: Hann var í raun og veru í 28. sæti af þeim sem tóku prófið í vor. Hann varð fyrir barðinu á sömu reiknivillu.

Fimm nemendur hafa samþykkt boð um skólavist við læknadeild háskólans, eftir að hafa verið tilkynnt í gær að hún byðist þeim. Þeir þurfa þá að byrja á að lesa upp. Villa kom upp úr dúrnum við athugun sem gerð var eftir að nemandi gerði athugasemd við niðurstöðu prófs síns á prófsýningu í sumar. Í ljós kom að fimm nemendur voru færðir langt niður listann, einungis vegna villunnar. 

„Rosalegur dagur í gær“

Þórður Björgvin Þórðarson, 23 ára, var sem fyrr segir einn af þeim. „Þetta var rosalegur dagur í gær. Ég vaknaði við símtal klukkan níu um morguninn og fékk þessar fréttir. Það skemmdi ekki fyrir að þá gat ég farið og komið fjölskyldunni á óvart með þessum sömu fréttum,“ segir Þórður í samtali við mbl.is.

Þórður Björgvin Þórðarson fór í stærðfræði í háskólanum eftir að …
Þórður Björgvin Þórðarson fór í stærðfræði í háskólanum eftir að sundurliðun niðurstöðu hans úr inntökuprófinu sýndi að hann hefði fengið 3,5 á stærðfræðihlutanum. Í stærðfræðinni gekk honum þó furðulega vel miðað við þá tölu, enda kom í ljós að sú tala var röng. Ljósmynd/Aðsend

Hann hafði óskað eftir því að niðurstaða sín yrði endurskoðuð, enda hafði hann á tilfinningunni að sér hefði gengið betur en að vera í 133. sæti, en þar sem farið er eftir röð við afgreiðslu slíkra beiðna var ekki enn komið að honum. Það er: fyrstur fær endurskoðun sá sem var í 56. sæti, svo 57. og koll af kolli.

„Þessar fréttir eru ekki síst fyndnar í ljósi þess að í niðurstöðum prófsins míns var ég með 3,5 í stærðfræðihlutanum samkvæmt sundurliðuninni. Eftir það skráði ég mig í stærðfræði í háskólanum og ég var að fá niðurstöðu úr stöðuprófi sem við tókum þar í byrjun annar þar sem meðaleinkunnin var 4,5. Þar var ég með 9,5,“ segir Þórður. „Eitthvað hlaut að vera bogið við þetta,“ segir hann.

Eftir fréttirnar í gær hitti hann bekkinn sinn og hann byrjar í skólanum á mánudaginn. „Ég er nú skráður í alla áfangana og það er bara allt á réttri leið,“ segir Þórður.

Farinn að kunna við sig í lögfræðinni

Árni Daníel Árnason fyrrnefndur, 19 ára, var búinn með tvær vikur í lögfræði við Háskóla Íslands þegar hann fékk símtalið í gær um að honum byðist pláss í læknadeild. Hann fór úr 150. sæti upp í 23. við endurskoðun; hafði fyrst fengið 5,86 í einkunn en var í raun með 7,23.

Árni Daníel Árnason var byrjaður í lögfræði, farinn að kunna …
Árni Daníel Árnason var byrjaður í lögfræði, farinn að kunna þar ágætlega við sig, en ætlar engu síður að byrja í læknisfræði á mánudaginn. Ljósmynd/Aðsend

Árni ætlar að þiggja boð um skólavist. „Já, ég held það nú, það var alltaf ætlunin,“ segir hann við mbl.is. „Samt þótti mér gaman þessar tvær vikur sem ég var í lögfræði og ég var farinn að íhuga að klára jafnvel grunnnámið í henni,“ segir Árni. Annars ætlaði hann að kanna þann kost að fara í læknaskóla á Norðurlöndum, sækja þar um að ári.

Fannst þér ekkert grunsamlegt að vera í 150. sæti?

„Jú, ég viðurkenni það alveg að mér fannst mér hafa gengið betur en það svo að ég sendi póst á læknadeildina,“ segir Árni. Það stóð á svörum, það leið og beið, Árni byrjaði í lögfræði, aðrir fengu sundurliðun sína senda, hann ekki, en loks fékk hann símtalið. Og skólinn byrjar á mánudaginn.

Í samtali við mbl.is hefur forseti læknadeildar, Engilbert Sigurðsson, gefið það út að héðan í frá verði stærðfræðingi bætt við í ferlið  fyrir var það einn  þar sem reiknaðar eru út niðurstöður prófanna. Það er að sjálfsögðu gert með það fyrir augum að gera niðurstöðurnar þeim mun áreiðanlegri.

Engilbert Sigurðsson geðlæknir er forseti læknadeildar Háskóla Íslands.
Engilbert Sigurðsson geðlæknir er forseti læknadeildar Háskóla Íslands. mbl.is/Ásdís

60 taka sæti í læknadeild þetta haustið, sem hvort eð er var fjöldamarkmið sem stefnt hafði verið að næsta haust, og að sögn Engilberts er það vel viðráðanlegur fjöldi. Hann segir að önnur eins villa hafi aldrei komið upp að læknadeildinni vitandi. Einstaka sinnum séu einhver atriði endurmetin við endurskoðun prófa á prófsýningu, ýmislegt sem lýtur að umdeildu orðalagi í spurningum og annað slíkt. En ekkert svona.

mbl.is