Segir dóminn „pólitískt at“

Sigríður Andersen steig til hliðar sem dómsmálaráðherra 14. mars.
Sigríður Andersen steig til hliðar sem dómsmálaráðherra 14. mars. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er til marks um ýmislegt að yfirrétturinn ætlar að taka þetta fyrir,“ sagði Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í kvöld. Hún ítrekaði þá skoðun sína að út frá sjónarhóli íslenska réttarríkisins hefði niðurstaða yfirréttar MDE um að taka landsréttarmálið fyrir engin áhrif.

Sigríður sagði Hæstarétt Íslands eina dómstólinn sem gæti tekið afstöðu til þess hvort dómarar væru löglega skipaðir eða ekki. Landsréttarmálið fjallar um það hvernig staðið var að skip­un fjög­urra dóm­ara við Lands­rétt.

Dóm­stóll­inn komst að þeirri niður­stöðu í mars að ís­lenska ríkið hefði brotið gegn sjöttu grein Mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu og var ríkið dæmt til að greiða 15 þúsund evr­ur í máls­kostnað. Stjórn­völd áfrýjuðu dómn­um og nú er ljóst að yf­ir­deild MDE mun taka málið fyr­ir.

„Að mínu mati er dómurinn, sem féll 11. mars, lögfræðilega rangur og ber þess sterk merki að vera pólitískt at,“ sagði Sigríður. Að því leyti sé fínt að MDE fái að skoða málið aftur.

Hún sagði enga réttaróvissu ríkja og að allir dómarar væru löglega skipaðir. Hæstiréttur væri eini dómstóllinn sem gæti tekið afstöðu til skipunar dómara og ekkert breytti því í Strasbourg.

mbl.is

Bloggað um fréttina