Laun borgarfulltrúa uppfærð

Dagur B. Eggertsson, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir og …
Dagur B. Eggertsson, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Líf Magneudóttir í góðu skapi fyrr í ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er með 2.198.732 krónur í mánaðarlaun. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs Reykjavíkurborgar, er samtals með 1.742.208 krónur í mánaðarlaun, hæst borgarfulltrúa. 

Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar en laun borgarfulltra voru nýverið uppfærð í samræmi við launavísitölu.

Frá og með 1.ágúst sl. eru grunnlaun borgarfulltrúa 763.833 kr. og grunnlaun 1. varaborgarfulltrúa 534.683 kr. Þá fær hver borgarfulltrúi greiddan starfskostnað að upphæð 55.164 kr. til að mæta öllum persónulegum kostnaði vegna starfsins. 

Flestir fá meira

Langflestir borgarfulltrúa fá þó meira en summu þessara talna greidda um hver mánaðamót því þeir eiga rétt á aukinni greiðslu, álagi á laun sín, ef þeir sitja í ráðum eða nefndum. Á borgarfulltrúi til að mynda rétt á 25% álagi á laun ef hann gegnir formennsku í borgarstjórnarflokki eða ef hann situr í þremur eða fleiri fastanefndum.  

Þá á formaður borgarráðs, Þórdís Lóa, rétt á 40% álagi. Að auki fást auknar greiðslur fyrir stjórnarsetu á vegum Reykjavíkurborgar en í þeim flokki er Þórdís Lóa langhæst borgarfulltrúa, fær 426.720 krónur fyrir slíkt.

Laun borgarstjóra eru ákveðin með öðrum hætti. Hann þiggur laun samkvæmt ráðningarbréfi að upphæð 1.976.025 krónur, en fær auk þess þóknun fyrir stjórnarformennsku í Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu að upphæð 222.707 krónur.

mbl.is

Bloggað um fréttina