Lést eftir björgun úr brennandi húsi

Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað út á fjórða tímanum á …
Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað út á fjórða tímanum á föstudag vegna reyks sem barst úr húsi við Hlíðarveg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karlmaður, sem bjargað var úr brennandi húsi við Hlíðarveg í Reykjanesbæ síðdegis á föstudag, lést á Landspítalanum síðar sama dag. 

Þetta staðfestir Sveinbjörn Halldórsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is, en Vísir greindi fyrst frá.

Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað út á fjórða tímanum á föstudag vegna reyks sem barst úr húsi við Hlíðarveg. Fljótlega kom í ljós að maður var inni í húsinu og fóru reykkafarar inn og björguðu honum. Hann var fluttur rakleiðis á slysadeild Landspítalans og var talsvert slasaður.

Eins og áður segir lést hann af sárum sínum síðar sama dag.

Að sögn Sveinbjörns stendur rannsókn á orsökum eldsvoðans enn yfir. Ekki er talið að neitt saknæmt hafi átt sér stað, en kveikt var á kertum þegar slökkvilið kom á staðinn og er talið líklegt að þau hafi átt hlut að máli.