Utanríkisráðherrar Norðurlanda funda í Borgarnesi

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra stýrði fundi norrænu utanríkisráðherranna, Honum á …
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra stýrði fundi norrænu utanríkisráðherranna, Honum á hægri hönd situr nýskipaður utanríkisráðherra Svíþjóðar, Ann Linde. Ljósmynd/Stjórnarráð Ísladns

Á fundum utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, sem fram fara í Borgarnesi í dag og á morgun, var meðal annars rætt um samstarf Norðurlandanna á sviði öryggis- og menntamála.

Að tillögu Íslands var ákveðið að vinna áfram að eflingu norræns samstarfs, nú með tilliti til nýrra ógna og margvíslegra breytinga á alþjóðavettvangi. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins.

„Við eigum ríka samleið með Norðurlöndunum í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum og ég hef lagt mikla áherslu á að unnið verði markvisst að því að auka samvinnu á þessu sviði. Því er ánægjulegt að ákveðið hafi verið að hefja undirbúning að nýjum tillögum um hvernig samstarfinu verði best háttað,“ sagði Guðlaugur Þór.

„Það má segja að norræna samstarfið sé grundvallarþáttur í okkar alþjóðasamstarfi enda fara hagsmunir okkar og gildi saman víðast hvar. Samstarfið er einkar gott á vettvangi alþjóðastofnana þar sem það styrkir rödd Norðurlandaþjóðanna allra.“

Guðlaugur Þór átti einnig tvíhliða fund með Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, þar sem þeir ræddu m.a. norðurslóðamál og öryggismál. Þá funduðu Guðlaugur Þór og Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, þar sem m.a. var rætt um náið samstarf ríkjanna og áherslur Norðurlandanna á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna þar sem ríkin eiga bæði sæti um þessar mundir. Þá ræddu þeir norræna samvinnu og málefni norðurslóða.

Við þetta tækifæri undirrituðu Guðlaugur Þór og Jeppe Kofod tvíhliða samning milli Íslands og Danmerkur um fyrirsvar í áritunarmálum. Danmörk er eitt níu ríkja sem afgreiða umsóknir um Schengen-vegabréfsáritanir til Íslands á svæðum þar sem Ísland er ekki með sendiskrifstofu. Ríkisborgarar fleiri en hundrað ríkja þurfa að sækja um Schengen-vegabréfsáritun til þess að komast til Íslands. Danir hafa hingað til afgreitt um tvo þriðju þeirra umsókna sem öll fyrirsvarsríkin afgreiða fyrir Ísland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert