Hvalur strandaði nálægt Hvammsvík í Hvalfirði

Frá vettvangi í Hvalfirði.
Frá vettvangi í Hvalfirði. Ljósmynd/Stephanie Langridge

Grindhvalur strandaði fyrr í dag nálægt Hvammsvík í Hvalfirði. Nokkuð af fólki er á staðnum og var beðið ákvörðunar um hvað gera skyldi, hvort hægt væri að bjarga dýrinu eða hvort það þyrfti að aflífa það vegna sára.

Stephanie Langridge jöklaleiðsögumaður var á ferð ásamt fjölskyldu sinni um Hvalfjörðinn rétt eftir hádegi og kom þá auga á fólk í fjörunni við hlið hvalsins. Fóru þau á vettvang til að athuga hvort hægt væri að aðstoða við að koma dýrinu í sjóinn. Í samtali við mbl.is segir hún að ljóst hafi verið að fleiri þyrfti til að færa dýrið, eða bíða þess að flæddi að.

Lögreglumenn voru á vettvangi og segir Stephanie að búið hafi verið að kalla til björgunarsveitir og sérfræðinga. Fólk á staðnum var með fötur og helti vatni yfir hvalinn.

Samkvæmt lögum eiga sérfræðingar MAST að meta aðstæður í tilvikum sem þessu. Þóra Jónasdóttir, dýralæknir hjá MAST, segir að sérfræðingar stofnunarinnar hafi veitt ráðleggingar til þeirra sem séu á vettvangi. Þá hafi ráðleggingum verið komið á sveitarfélagið sem beri samkvæmt lögum um velferð dýra ábyrgð á að bregðast við.

mbl.is