Sameinast um millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll

Þverpólitísk þingályktunartillaga hefur verið lögð fram um millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll ...
Þverpólitísk þingályktunartillaga hefur verið lögð fram um millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll með minni farþegaflugvélum og vélum í ferjuflugi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Þingmenn fimm flokka hafa lagt fram þingsályktunartillögu um millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll með minni farþegaflugvélum og vélum í ferjuflugi. Fram kemur að skoða þurfi hvort fyrir hendi sé nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt sé að sinna þaðan millilandaflugi.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem tillaga um millilandaflug á Höfn er lögð fram. Hún var lögð fram átta sinnum frá árinu 2012 og er nú lögð fram í níunda skipti.   

Í tillögunni er bent á að millilandaflugið hjálpi til við dreifingu ferðamanna auk þess að minnka álag á Keflavíkurflugvelli og auka öryggi í flugi yfir landið. Lögð er áhersla á að ráðist verið í aðgerðir til að „treysta enn frekar atvinnulíf í Hornafirði og nágrenni og stuðla að frekari uppbyggingu og vexti Vatnajökulsþjóðgarðs“.

Flutningsmenn tillögunnar að þessu sinni eru: Vilhjálmur Árnason, Ásmundur Friðriksson og  Páll Magnússon þingmenn Sjálfstæðisflokks, Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins, Ari Trausti Guðmundsson þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Karl Gauti Hjaltason og Birgir Þórarinsson sem sitja á þingi fyrir Miðflokkinn og  Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar. 

Nánar um tillöguna

mbl.is