„Þetta er löng þrautaganga“

Georg Holm og Orri Páll Dýra­son, fyrr­ver­andi trommu­leik­ari Sig­ur Rós­ar.
Georg Holm og Orri Páll Dýra­son, fyrr­ver­andi trommu­leik­ari Sig­ur Rós­ar. mbl.is/Eggert

„Í dag eru 1.334 dagar frá því að sakamálarannsókn skattrannsóknarstjóra hófst,“ sagði Bjarnfreður Ólafsson, verjandi Orra Páls Dýrasonar, fyrrverandi trommara Sigur Rósar, þegar frávísunarkrafa Orra og félaga hans í Sigur Rós í meintu skattalagabroti á hendur þeim var tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Meint skattsvik nema alls 190 milljónum króna.

Verjandinn sagði að helst væru tvær ástæður að baki því að vísa ætti málum Sigur Rósar-manna frá. Annars vegar hefði rannsókn ólíkra embætta tekið langan tíma, þrátt fyrir að hinir ákærðu hefðu verið samstarfsfúsir, og hins vegar hefðu þeir áður sætt refsingu fyrir hin meintu brot.

Ekki hægt að taka mál fyrir aftur og aftur

Bjarnfreður vísaði til þess að ekki væri hægt að taka mál fyrir aftur og aftur. Enginn skyldi sæta refsingu að nýju vegna máls sem áður hefði verið tekið fyrir.

Sú regla væri mjög mikilvæg og ætti að vera varnagli fyrir borgara til að ekki sé hægt að endurtaka mál ef sýkna liggur fyrir.

Hann lagði mikla áherslu á ákvæði Mannréttindadómstóls Evrópu um þetta; bann við endurtekinni málsmeðferð. Sagði hann að íslenska ríkið hefði á undanförnum árum hlotið áfellisdóma hjá MDE fyrir slík mál og nefndi í því samhengi mál Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar gegn ríkinu.

Bjarnfreður sagði að skattrannsóknarstjóri, ríkisskattstjóri og nú héraðssaksóknari hefðu allir rannsakað málið. Það væri því einsýnt að málsmeðferð væri alla vega tvöföld og mætti færa sterk rök fyrir því að hún væri þreföld.

Jón Þór Birg­is­son, söngv­ari Sig­ur Rós­ar og Georg Holm, bassa­leik­ari …
Jón Þór Birg­is­son, söngv­ari Sig­ur Rós­ar og Georg Holm, bassa­leik­ari sveit­ar­inn­ar, koma í Héraðsdóm Reykja­vík­ur í vor. mbl.is/Eggert

„Þessi mál kolfalla á prófinu“

Lögmaðurinn sagði að áðurnefnd mál hjá MDE hefðu fallið á tveimur lykilþáttum. Of margir aðilar væru að safna gögnum sjálfstætt og síðan féllu málin líka á tíma. „Þessi mál kolfalla á prófinu nema dómstólar spyrni við fótum og tryggi rétta meðferð í þessum málum hér á landi,“ sagði Bjarnfreður.

Hann sagði að í þessu máli, sem hefði verið rannsakað í rúma þúsund daga, hefði skattrannsóknarstjóri fyrst rannsakað málið. Þar væri um sakamálarannsókn að ræða en niðurstaðan þar er birt í skýrslu og þar með lýkur rannsókn þess embættis.

Sé um meint stórfellt brot að ræða sendir skattrannsóknarstjóri málið í tvær ólíkar áttir. Annars vegar til ríkisskattstjóra, sem ber að lögum að taka mál til rannsóknar og skoða að nýju. Hins vegar er málið sent héraðssaksóknara.

Þar er meintur sakamaður aftur yfirheyrður í máli og mynd og fer í gegnum allt ferlið aftur. Bjarnfreður sagði að ákærði þyrfti þar í þriðja sinn að svara fyrir nákvæmlega sakarefnið og þá í annað sinn sem sakborningur.

Bjarnfreður sagði að það væri ekkert í lögum eða reglum sem segði að saksóknari ætti að takmarka rannsókn vegna fyrri rannsókna. „Þetta er því löng þrautaganga. Ekki bara í þessu máli heldur í öllum sambærilegum málum,“ sagði Bjarnfreður.

Vísa ætti málinu frá vegna þess að Orri hefði áður sætt refsingu og greitt sína skatta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert