Þekking, Lögreglan og Landspítalinn verðlaunuð

Starfsmenn Þekkingar, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Landspítalans háskólasjúkrahúss fögnuðu verðlaununum. …
Starfsmenn Þekkingar, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Landspítalans háskólasjúkrahúss fögnuðu verðlaununum. Frá vinstri eru Hildur Dís Kristjánsdóttir, Steingrímur Fannar Stefánsson, Vignir Ö. Oddgeirsson, Hrönn Stefánsdóttir, Júlíus Sigurjónsson, Auður Ester Guðlaugsdóttir, Einar Karl Kristjánsson, Kolbrún Jóna Pétursdóttir og Helgi Valberg Jensson. Ljósmynd/Aðsend

Íslenskt verkefni sem Þekking, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Landspítalinn háskólasjúkrahús unnu að í sameiningu, sigraði í Media Management Award en tilkynnt var um úrslitin í morgun.

Verkefnið snerist um að deila upplýsingum á milli rannsóknaraðila Lögreglunnar og Landspítala háskólasjúkrahúss í öruggum skráarskiptum, að því er segir í tilkynningu. 

Verkefnið, sem var leitt af Þekkingu og vinnuhópum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Landspítalanum háskólasjúkrahúsi, fékk mjög góða umsögn frá dómnefnd Media Management Award en þar sagði m.a.: „Verkefnið sýnir mestu nýsköpunina í framúrskarandi útfærslu á meðferð viðkvæmra gagna. Framkvæmd verkefnisins er nýstárleg á heimsmælikvarða og er dæmi um samstarfsaðferð sem ekki hefur verið notuð áður. Verkefnið undirstrikar mikilvægi og þörf á því að deila upplýsingum á milli stofnana ásamt því hvernig tækni nýtist frábærlega þeim sem starfa við að tryggja öryggi þegna og samfélags.“

Tvö önnu verkefni voru tilnefnd til fyrstu verðlauna: Springer Medizin og National Institute of Dramatic Art (NIDA). 

„Það kom okkur þægilega á óvart að vera tilnefnd til þessara verðlauna og auðvitað enn betra að við skyldum enda sem sigurvegarar á móti þessum flottu verkefnum,“ er haft eftir Steingrími Fannari Stefánssyni, sérfræðingi hjá Þekkingu, í tilkynningu. 

„Þetta sýnir okkur að við erum að vinna á heimsmælikvarða og það þarf oft að minna sig á að þó svo að Ísland sé ekki fjölmennt, þá eigum við frábæra sérfræðinga í þekkingargeiranum,“ segir Steingrímur ennfremur. 

Þekking er samstarfsaðili FotoWare sem sérhæfir sig í lausnum er varða utanumhald stafrænna gagna eins og mynda og teikninga svo dæmi séu tekin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert