Ungt fólk velur sér vinnustað eftir umhverfisgildum

Frá vinstri: Bergdís Bjarnadóttir, Dagmar Óladóttir, Guðrún Dís Magnúsdóttir og …
Frá vinstri: Bergdís Bjarnadóttir, Dagmar Óladóttir, Guðrún Dís Magnúsdóttir og Bryndís Helga Traustadóttir. mbl.is/Þórunn Kristjánsdóttir

„Það þarf að breyta þessu. Við getum ekki haft þetta svona og stjórnvöld þurfa að gera eitthvað. Ég vil ekki bjóða börnunum mínum upp á þessa framtíð, það er að segja ef ég eignast börn einhvern tíma, að þau þurfi að hafa gasgrímu þegar þau labba út úr húsi og geti ekki séð dýrin í sínu rétta umhverfi,” segir Bryndís Helga Traustadóttir sem var mætt á Austurvöll til að hvetja stjórnvöld til aðgerða í baráttunni gegn loftslagsvánni. 

Samfélagið í heild þurfi að vakna og stjórnvöld geti stuðlað að breytingum með ákvörðunum sínum, segja fjórir mótmælendur sem mbl.is tók tali á Austurvelli í dag. 

„Fólk þarf að byrja á sjálfu sér en það er mikilvægt að stjórnvöld grípi til aðgerða því einstaklingar geta bara gert ákveðið mikið. Stjórnvöld geta til dæmis þrýst á fyrirtæki að taka sig saman í andlitinu,“ segir Dagmar Óladóttir.

Talsverður hiti var á meðal þátttakenda og ræðumanna en mikil samstaða ríkti um málstaðinn. Þær allar voru sammála um að fyrstu skrefin byrja hjá einstaklingnum sjálfum. Þær reyna að leggja sitt af mörkum með því að skoða sína eigin samgöngumáta, minnka kjötneyslu og draga úr almennri neyslu svo fátt eitt sé nefnt.

„Fyrir framtíðina reynir maður að velja sér vinnustað sem hefur rétt gildi. Ungt fólk horfir mikið á það hvort vinnustaðurinn vinni að umhverfismálum,“ segir Bergdís Bjarnadóttir spurð um þær aðgerðir sem hún lítur til og hefur reynt að tileinka sér. Hún var mætt til að hvetja stjórnvöld til aðgerða í baráttunni gegn loftslagsvánni. 

Þær eru allar sammála um að mikil vitundarvakning eigi sér stað hér heima núna sem og um allan heim. Þolinmæði fólks er á þrotum og við þurfum að vakna, segi þær.  

Guðrún Dís Magnúsdóttir var að taka þátt í sínum fyrstu mótmælum gegn loftslagsvánni og segir það löngu tímabært að leggja sitt af mörkum. „Mér finnst vera mikil vitundarvakning um þessi mál núna,“ segir hún. Hún hefur líkt og alþjóð fylgst með Gretu Thurnberg og dáðst að baráttu hennar sem hefur náð að vekja heimsbyggðina um loftslagsvána.

Allsherjarverkfall gegn loftslagsvánni á Austurvelli.
Allsherjarverkfall gegn loftslagsvánni á Austurvelli. mbl.is/​Hari
Allsherjarverkfall gegn loftslagsvánni á Austurvelli.
Allsherjarverkfall gegn loftslagsvánni á Austurvelli. mbl.is/​Hari
mbl.is