„Ég lét bara vaða“

María Pálsdóttir.
María Pálsdóttir. mbl.is/Golli

Í stað þess að kvarta og kveina yfir því hversu dýrt og erfitt það væri að koma grunnskólanemendum á Akureyri í leikhús ákvað leik- og athafnakonan María Pálsdóttir að láta hendur standa fram úr ermum. Hún skorar á fyrirtæki á Akureyri að bjóða öllum fjórðu bekkingum á Akureyri og í nærsveitum í leikhús og er búin að fá styrk fyrir flesta.

María greindi frá hugmyndinni á Facebook-síðu sinni í vikunni; fyrirtæki á Akureyri myndu bjóða einum árgangi á skólaári í leikhús. María, sem rek­ur HÆLIÐ – set­ur um sögu berkl­anna, reið sjálf á vaðið og og bauð fjórða bekk Hrafnagils­skóla, Þela­merk­ur­skóla og Vals­ár­skóla, fyr­ir hönd HÆLIS­INS, á nýja fjöl­skyldu­verkið Galdrag­átt­in og þjóðsag­an sem gleymd­ist sem frum­sýnt verður í Sam­komu­hús­inu 5. októ­ber.

„Hugmyndin kviknaði þegar leikhópur kom í heimsókn til mín í föstudagsþáttinn á N4 og var spenntur að senda tilboð vegna verksins í skólana. Þau sögðu miðann ekki kosta nema 3.500 krónur á haus og það væri með miklum afslætti,“ segir María við mbl.is. Hún vissi strax að skólarnir hefðu ekki efni á því og það liggi við að foreldrar í bekkjaráðum megi ekki skipuleggja neitt sem kostar meira en 500 krónur, svo allir geti verið með. 

Lítil, krúttleg fyrirtæki leggja hönd á plóg

„Það er svo mikil synd að krakkar fari ekki með skólanum sínum í leikhús, ferðin með samnemendum er svo mikil upplifun,“ segir María sem ákvað þá að grípa til áðurnefndra ráða. 

Aðspurð segir María að ólíklegustu fyrirtæki hafi styrkt verkefnið. „Ég hélt að stærri fyrirtæki myndu grípa boltann en þetta eru lítil, krúttleg fyrirtæki sem ég hef aldrei heyrt um. Það er skemmtilegt,“ segir María og hlær.

Frá samkomuhúsi Akureyrar.
Frá samkomuhúsi Akureyrar. mbl.is/Sigurður Bogi

Æskilegra ef það væri eitthvert kerfi

Hún segir að skólastjórnendur hafi tjáð sig á facebooksíðu hennar og lýst yfir ánægju sinni með framtakið. Hún eigi eftir að ræða við þá um hvenær krakkarnir komi í leikhúsið. Leikhópurinn mun senda skólunum dagsetningar varðandi mögulegar sýningar.

„Ég hafði ekkert samband við skólana, ég lét bara vaða,“ segir María og hlær.

Hún segir að auðvitað væri æskilegra ef skólarnir gætu séð um leikhúsferðirnar sjálfir eða það væri eitthvert kerfi. „Eflaust fara flestir einhvern tímann í leikhús á vegum einhverra en það er voðalega handahófskennt. Þjóðleikhúsið kemur kannski ekki á hverju ári út á land þó að það reyni kannski að stefna á það,“ segir María sem vonast til að hugmyndin sýni Akureyri sem fallegt og gott samfélag.

Lítið fræ sem getur stækkað

„Mér fannst hugmyndin svo falleg, að áran sé þannig yfir Akureyri að allir séu góðir við náungann, ekki bara hver í sínu og að hugsa um sig. Fólk hugsi um hvernig er hægt að gera samfélagið betra,“ segir María og heldur áfram:

„Þetta er líka lítið fræ sem getur stækkað. Við erum saman, tölum saman og gerum eitthvað fyrir hvert annað. Einhvers staðar byrjar maður og þetta er lítið fræ en má alls ekki verða einstakur viðburður; bara í ár og ekki aftur. Ég passa upp á það.“

María minnir á að enn vanti fyrirtæki sem eru tilbúin að styrkja hálfan árgang í Lundarskóla og Naustaskóla. Hún hvetur áhugasama til að senda henni línu á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert