Andlát: Haraldur Sveinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Árvakurs

Haraldur Sveinsson
Haraldur Sveinsson

Haraldur Sveinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, lést á hjúkrunarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi sl. laugardag, 21. september, 94 ára að aldri.

Haraldur, sem var sonur hjónanna Soffíu Emelíu Haraldsdóttur húsfreyju og Sveins Magnúsar Sveinssonar, forstjóra Timburverslunarinnar Völundar, fæddist 15. júní 1925 í Reykjavík.

Haraldur lauk stúdentsprófi frá MR 1944. Hann var sölumaður hjá Timburversluninni Völundi hf. 1945-1951 og framkvæmdastjóri þar 1951-1968 og framkvæmdastjóri Morgunblaðsins 1968-1995. Hann átti jafnframt sæti í stjórn Árvakurs um árabil og var formaður hennar 1954-1969 og 1995-2005. Auk þess gegndi Haraldur ýmsum félags- og trúnaðarstörfum á vettvangi atvinnulífsins og var félagi í Rotaryklúbbi Reykjavíkur frá 1952 og forseti 1963-64.

Haraldur sat lengi í stjórn hestamannafélagsins Fáks og Landssambands hestamannafélaga 1961-79 og var gerður að heiðursfélaga Landssambands hestamannafélaga árið 2011, en hafði áður hlotið gullmerki þess. Segja má að utan starfsins hafi hestamennskan átt hug Haraldar, sem ungur eignaðist jörðina Álftanes á Mýrum, þar sem hann var með hross og stundaði búskap.

Eftirlifandi eiginkona Haraldar er Agnes Jóhannsdóttir, f. 1927, húsfreyja. Börn þeirra eru Soffía, f. 1955; Ásdís, f. 1956; Jóhann, f. 1959; Sveinn f. 1962. Barnabörnin eru fimm og langafabörnin sex.

Að leiðarlokum þakkar Árvakur Haraldi fyrir störf hans við fyrirtækið og sendir fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert