Leggur trú sína á ráðstafanir ráðherra

Páll vildi sem minnst segja um málið þegar mbl.is sló …
Páll vildi sem minnst segja um málið þegar mbl.is sló á þráðinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég hef trú á því að dómsmálaráðherra grípi til þeirra ráðstafana sem þarf til þess að tryggja vinnufrið innan lögreglunnar og traust landsmanna á henni,“ segir Páll Magnússon, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, um þá stöðu sem upp er komin innan lögreglunnar.

Átta af níu lögreglustjórum hafa lýst vantrausti á ríkislögreglustjóra. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra fundaði með Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra í morgun og tjáði fjölmiðlum að loknum fundi hennar með ríkisstjórninni að hann sæti enn í embætti.

Páll vildi hvorki tjá sig um það hvort hann héldi að lögregla gæti starfað eðlilega á meðan Haraldur væri áfram í embætti í ljósi vantraustsyfirlýsinga né hvort honum þætti eðlilegt að hann viki tímabundið úr embætti á meðan vinnsla málsins stæði yfir.

Lögreglustjóri tjáir sig ekki að svo stöddu

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Vesturlandi og formaður Lögreglustjórafélags Íslands, tjáði mbl.is að hann ætlaði ekki að tjá sig um mál ríkislögreglustjóra að svo stöddu. mbl.is hefur ekki náð sambandi við aðra lögreglustjóra vegna málsins.

mbl.is