„Þessi staða er óþolandi“

Þorsteinn Sæmundsson
Þorsteinn Sæmundsson mbl.is/​Hari

„Það skiptir öllu máli að um lögregluna, sem stofnun og störf hennar, ríki traust og trúnaður en því er ekki að heilsa þessa dagana og vikurnar,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, á Alþingi. Hann telur að Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri verði að víkja sem allra fyrst.

Þorsteinn benti á það sem áður hefur komið fram að átta af níu lög­reglu­stjór­um á landinu, auk stjórnar Landssambands lögreglumanna, hafa lýst vantrausti á Harald. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra fundaði með Haraldi í morgun og greindi frá því að hann sæti áfram í embætti enn um sinn.

„Þessi staða er óþolandi og við henni þarf að bregðast núna, ekki eftir nokkrar vikur,“ sagði Þorsteinn. Hann bætti því við að málið yrði ekki leyst með svokölluðum skipulagsbreytingum.

„Það sem þarf að gerast núna er að ríkislögreglustjóri víki frá störfum nú þegar til þess að skapa traust um störf og starfsemi lögreglunnar á nýjan leik,“ sagði Þorsteinn.

Hann sagði að ef nýskipaður dómsmálaráðherra myndi ekki gera það væri hún að falla á fyrsta prófinu í embætti. Þorsteinn hefur trú á því að Áslaug Arna taki á málinu af myndugleika og sjái til þess að ríkislögreglustjóri víki úr starfi þannig að traust geti aftur skapast um störf lögreglunnar.

„Það má ekki bíða, það þarf að gerast núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert