Sambærilegt öðrum tilboðum SA

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA. mbl.is/​Hari

Samtök atvinnulífsins lögðu fram tilboð sem var sambærilegt við aðra kjarasamninga sem SA hafa gengið frá á undanförnum vikum og misserum. Þetta segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, en formaður Blaðamannafélagsins kvaðst „gáttaður“ eftir fund dagsins, þar sem viðræðum vegna kjarasamninga blaðamanna var slitið.

„Samtök atvinnulífsins eru búin að ljúka gerð kjarasamninga við um það bil 95% af sínum viðsemjendum og það hefur gengið ágætlega hingað til,“ segir Halldór sem bætir því við að nú þurfi að sjá hver framvinda málsins verði. 

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að í tilboði sem þeir hefðu fengið í gær væri ekkert af þeim áhersluatriðum sem farið hefði verið yfir undanfarna mánuði. Halldór segist ekki geta upplýst um það sem fer fram á borði sáttasemjara. 

„Ég get ekki upplýst um neitt sem á sér stað inni á borði sáttasemjara. Við komum fram við alla okkar viðsemjendur af virðingu. Stefna SA í þessum kjaraviðræðum er orðin býsna skýr.“ segir Halldór sem býst við því að setjast aftur niður með samninganefnd Blaðamannafélagsins fljótlega:

„Ég geri fastlega ráð fyrir því að ríkissáttasemjari muni heyra í deiluaðilum um eða eftir helgi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert