„Það var bara komið að leiðarlokum“

Fréttablaðið er til húsa við Hafnartorg í miðborg Reykjavíkur.
Fréttablaðið er til húsa við Hafnartorg í miðborg Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það var komið að leiðarlokum,“ segir Kristín Þorsteinsdóttir, fráfarandi útgefandi og ritstjóri Fréttablaðsins. Hún greindi frá því á Facebook-síðu sinni nú síðdegis að hún hefði látið af störfum hjá miðlinum.

Spurð hvort henni hafi verið gert að hætta eða hvort ákvörðunin hafi verið hennar svarar Kristín því ekki beint. „Ég er ekki að fara í neinum illindum og er ekki týpan sem skellir hurðum. Það var bara komið að leiðarlokum.“

Helgi Magnússon fjárfestir keypti helmingshlut í útgáfufélagi Fréttablaðsins fyrr í sumar en í facebookfærslu Kristínar kemur fram að ný stjórn hafi tekið við, með nýju fólki og nýjum áherslum. 

Kristín Þorsteinsdóttir.
Kristín Þorsteinsdóttir.

„Ég er búin að vera í forsvari fyrir alls konar breytingar sem við höfum gert. Það tekur allt enda og eitthvað nýtt og spennandi tekur við,“ segir Kristín sem vill ekkert segja um hvað er næst á dagskránni hjá henni:

„Það er ýmislegt í farvatninu og það kemur í ljós hvað ég geri. Ég er að velta spennandi hlutum fyrir mér,“ segir Kristín sem segist kveðja ánægð eftir fimm ár hjá Fréttablaðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert