Fleiri með engan sérstakan áhuga

mbl.is/Hjörtur

„Það má kannski segja að það sé orðum aukið að þetta mál brenni á öllum. Það er svona ákveðinn hópur sem hefur mjög sterkar skoðanir á þessu náttúrulega og það brennur á stórum hópi. En ég held að það sé samt sem áður stærri hópur sem hefur ekkert sérstaklega mikinn áhuga á því.“

Þetta segir Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður félagsvísindastofnunar Háskóla Ísland, í samtali við mbl.is, aðspurð hvort niðurstöður skoðanakönnunar, sem stofnunin hefur unnið fyrir stjórnvöld í tengslum við fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins, bendi til þess að stjórnarskrárbreytingar brenni á þjóðinni eins og stundum hefur verið talað um í umræðunni á liðnum árum.

Tæpur þriðjungur til í að mæta á umræðufund

Til stendur í framhaldi af gerð skoðanakönnunarinnar að boða til umræðufundar helgina 9. og 10. nóvember þar sem hluta af þeim sem svöruðu í könnuninni verður boðið að taka þátt. Var meðal annars spurt að því í könnuninni hvort aðspurðir hefðu áhuga á að taka þátt í fundinum.

Fram kemur í niðurstöðum skoðanakönnunarinnar að einungis 29% þátttakenda í henni sögðust vera tilbúin að taka þátt í slíkum umræðufundi um stjórnarskrána á meðan aðrir afþökkuðu það. Þá kemur einnig fram í könnuninni að mun fleiri séu ánægðir með núgildandi stjórnarskrá en óánægðir.

Stærri hópur með ekkert mjög sterkar skoðanir 

„Það er bara ákveðin tregða hjá fólki alltaf að koma og taka þátt í svona umræðufundum. Þannig að það eru fyrst og fremst þeir sem hafa tiltölulega sterkar skoðanir sem eru tilbúnir til þess að taka þátt í svona umræðum.“ Fólk sé yfirleitt ekkert áfjáð að taka þátt í slíkum fundum.

Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður félagsvísindastofnunar Háskóla Ísland, kynnir skoðanakönnunina fyrir …
Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður félagsvísindastofnunar Háskóla Ísland, kynnir skoðanakönnunina fyrir helgi í Ráðherrabústaðnum. mbl.is/Árni Sæberg

Spurð áfram hvort draga megi þá ályktun að flestir hafi mögulega enga sérstaka skoðun á málinu segir Guðbjörg: „Já, það er stærri hópur sem hefur ekkert mjög sterkar skoðanir á þessu, stærsti hópurinn er svolítið hlutlaus.“ Spennandi verði fyrir vikið að sjá hvernig gangi að fá fólk til að mæta á fundinn.

Fólk með sterkar skoðanir líklegra til þátttöku

„Það eru sex hundrað og eitthvað sem segjast hafa áhuga á að koma. Og síðan eigum við eftir að tala við hópinn aftur og við svona vonumst til að vera með um það bil þrjú hundruð á fundinum,“ segir Guðbjörg. Spurð hvort ekki gæti reynst erfitt að stilla hópinn af svo hann endurspegli þjóðina ef þeir sem eru tilbúnir að mæta hafa upp til hópa sterkar skoðanir á málinu segir hún:

„Þeir eru líklegri til þess að segja já, þeir sem eru með sterku skoðanirnar. En það er samt líka ákveðinn hópur þeirra sem eru svona hlutlausir eða í hvorki né hópnum sem segjast vera tilbúnir að taka þátt. Þannig að við þurfum að hafa meira fyrir því að sannfæra þann hóp um að koma.“

Spurning um alþjóðastofnanir rosalega opin 

Vakið hefur athygli að spurningarnar í skoðanakönnuninni eru ýmsar mjög opnar. Meðal annars á það við um spurningu sem snýr að breytingum á stjórnarskrá vegna þátttöku í alþjóðasamstarfi. Þar kemur hins vegar ekki fram um hvaða breytingar sé að ræða en í umræðunni hefur þar allajafna verið rætt um nýtt ákvæði sem heimili Alþingi að framselja hluta íslensks ríkisvalds til alþjóðastofnana.

mbl.is/Hjörtur

Guðbjörg segir aðspurð að það sé rétt að fyrir vikið sé spurningin mjög opin og ekki skýrt hvað felist í svarmöguleikunum. Hugmyndin hafi verið sú að vera með tiltölulega einfaldar spurningar sem síðan væri hægt að ræða á umræðufundinum út frá rökum með og á móti ýmsum útgáfum í þeim efnum.

„Hún er svona tiltölulega skýr að því leytinu til en hún er rosalega opin. Hvort þú ert hlynntur því að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi er náttúrulega alveg svakalega opið,“ segir Guðbjörg. Aðeins sé verið að segja að setja þurfi skýrari ramma. „En hvernig sá rammi á að vera er óskrifað blað ennþá.“ 

Rétt að fara varlega í að draga of miklar ályktanir

Fyrri skoðanakannanir sem gerðar hafa verið, þar sem spurt hefur verið um afstöðu fólks til framsals ríkisvalds til alþjóðastofnana, hafa sýnt mikinn meirihluta andvígan framsali valds. Spurð hvort fara þurfi varlega í að draga of miklar ályktanir af niðurstöðum skoðanakönnunar félagsvísindastofnunar í ljósi þess hversu opnar ýmsar spurningarnar eru segir Guðbjörg.

„Já, það borgar sig ekki. Í rauninni göngum við ekki frá lokaskýrslu um þetta ferli fyrr en eftir að umræðufundur og seinni viðhorfskönnun hefur verið lögð fyrir líka. Þannig að þetta er bara fyrsta skrefið í þessu verkefni. Ef þetta hefði verið frístandandi könnun þá er ég sammála, þá hefði ég viljað breyta ýmsum spurningum og hafa þær miklu nákvæmari.“

mbl.is/Hjörtur
mbl.is