„Nötraði og var hálfhrædd“

Ragnheiður Friðriksdóttir var á gangi á Patterson-svæðinu, gömlu æf­inga­svæði banda­ríska hers­ins, í blíðviðrinu á sunnudag þegar hún steig ofan á eitthvað óvenjulegt. „Ég fattaði um leið að þetta var ekki steinn,“ segir hún í samtali við mbl.is. 

Hún kallaði á eiginmann sinn, Hörð Björn Sigurjónsson, sem var með henni í göngunni ásamt frænda hennar, Ingvari Vilhjálmssyni, og voru þau fljót að átta sig á að þarna var um að ræða handsprengju. Hjónin eru mikið áhugafólk um „gamalt herdót“ eins og Ragnheiður orðar það og Hörður var fljótur að átta sig á að líklega væri sprengjan virk. 

Ragnheiður segir sjokkið hafa verið talsvert en að hún hafi ekki gert sér grein fyrir að miklu verr hefði getað farið fyrr en lögreglumaður benti henni á það. „Hann sagði að ég hafi verið heppin að hún hafi ekki sprungið þegar ég steig ofan á hana. Ég nötraði og var hálfhrædd á leiðinni heim,“ segir hún. 

Handsprengjan var ekki auðþekkjanleg innan um steinana á Patterson-svæðinu og …
Handsprengjan var ekki auðþekkjanleg innan um steinana á Patterson-svæðinu og það var ekki fyrr en Ragnheiður steig ofan á hana sem hún fattaði að eitthvað óvenjulegt væri á ferðinni. Ljósmynd/Ragnheiður Friðriksdóttir

Atvikið átti sér stað síðdegis á sunnudag og tilkynntu þau fundinn til Neyðarlínu. Lögregla hafði sam­band við sprengju­sér­fræðinga og mættu starfs­menn Land­helg­is­gæsl­unn­ar um klukkan fjögur síðdegis og eyddu sprengj­unni um tveimur tímum seinna. Myndskeið af því þegar sprengjan er gerð óvirk má sjá efst í fréttinni. 

Ragnheiður Friðriksdóttir smitaðist af áhuga á „gömlu herdóti“ frá manni …
Ragnheiður Friðriksdóttir smitaðist af áhuga á „gömlu herdóti“ frá manni sínum og því fara þau oft í gönguferðir um Patterson-svæðið. Hún bjóst samt sem áður ekki við því að stíga ofan á virka handsprengju. Ljósmynd/Aðsend

Þekkt sprengjuæfingasvæði gamla varnarliðsins

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni var sprengjan á þekktu sprengjuæfingasvæði gamla varnarliðsins. Talið er að handsprengjan hafi verið í jörðu og komið upp á yfirborðið í jarðvegslyftingum. Vel gekk að eyða sprengjunni. 

Ragnheiður, Hörður og Ingvar fylgdust  grannt með aðgerðum sprengjusérfræðinganna. „Það voru allir mjög rólegir, þetta voru tveir menn frá Landhelgisgæslunni sem græjuðu þetta bara.“ 

Tveir sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar eyddu sprengjunni. Svona var um að litast …
Tveir sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar eyddu sprengjunni. Svona var um að litast eftir að sprengjan sprakk. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Handsprengjufundurinn mun ekki aftra hjónunum í að leggja í frekari gönguferðir um svæðið. „Ó nei, maðurinn minn hefur mikinn áhuga á þessu og smitaði mig. Svo vann mamma uppi á velli þegar ég var yngri,“ segir Ragnheiður, sem er hálfur Keflvíkingur, en þau hjónin eru búsett í Reykjavík og munu halda áfram að venja komur sínar á gamla hersvæðið.

Margoft hefur verið leitað á svæðinu og það hreinsað en endrum og sinnum finnast þar sprengjur á borð við þessa sem koma upp á yfirborðið, að því er segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. 

Landhelgisgæslan leggur því áherslu á að fólk gæti varúðar á svæðinu. Leiki grunur á að um sprengju sé að ræða er mikilvægt að láta lögreglu vita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert