Tæplega 51 prósent segist styðja ríkisstjórnina

Ríkisstjórn Íslands á fundi sínum fyrr á árinu áður en …
Ríkisstjórn Íslands á fundi sínum fyrr á árinu áður en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir bættist í hópinn en hún gegnir embætti dómsmálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Sjálfstæðisflokkurinn fengi 24 prósent atkvæða og myndi bæta við sig manni frá síðustu kosningum, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Tæplega 51 prósent þeirra sem taka afstöðu styðja ríkisstjórnina, hins vegar væri hún fallin ef gengið yrði til kosninga nú. Þetta kemur fram á vef RÚV

Rúmlega 16 prósent sem taka afstöðu segjast myndu kjósa Samfylkinguna og ríflega 12 prósent Miðflokkinn. 12 prósent myndu kjósa Vinstri hreyfinguna - grænt framboð og rúmlega 11 prósent Viðreisn. Um 10 prósent myndu kjósa Pírata, næstum 8 prósent myndu kjósa Framsóknarflokkinn, um 4 prósent Flokk fólksins og 3 prósent Sósíalistaflokkinn. 

Samfylkingin myndi bæta við sig 4 þingmönnum og fengi 11 menn kjörna. Miðflokkurinn myndi bæta við sig einum þingmanni ef gengið yrði til kosninga núna en hann fékk 7 menn kjörna í síðustu kosningum. Vinstri græn missa 3 þingmenn og myndu ná 8 inn á þing, Viðreisn myndi bæta við sig 4 þingmönnum og Píratar stæðu í stað með sex þingmenn.

Framsóknarflokkurinn fékk 8 þingmenn í síðustu kosningum en nú fengi hann 5. Flokkur fólksins sem fékk 4 þingmenn í kosningum fengi engan fulltrúa kjörinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina