Fer yfir 35 metra á sekúndu

Kort/Veðurstofa Íslands

Með skilum lægðar í suðvestri má reikna með austan- og suðaustanstormi síðar í dag og í kvöld. Samkvæmt upplýsingum frá Einari Sveinbjörnssyni veðurfræðingi Vegagerðarinnar má búast við hviðum um og yfir 35 m/s eftir klukkan 15 í dag undir Eyjafjöllum en þeim styrk nær vindur ekki fyrr en á milli 18 og 21 á utanverðu Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli.

Gul viðvörun er í gildi við Faxaflóa, á Suðurlandi og miðhálendinu. 

Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands biður fólk um að aka gætilega í byljóttum vindi, festa tryggilega lausamuni við húsið og hreinsa laufblöð og annað rusl frá niðurföllum og ræsum.

„Gengur í suðaustanstorm í dag, jafnvel -rok sunnan og vestan til og rigningu öðru hvoru en mun hægari vindur á Norður- og Austurlandi og yfirleitt bjartviðri. Fer ekki að draga úr vindi fyrr en árla laugardags en hvessir þá fyrir norðan og austan. Rignir víða í nótt og til fyrramáls, rofar síðan smám saman til, en heldur áfram að rigna talsvert á Suðausturlandi allan morgundaginn fram á sunnudag. Áfram fremur hlýjar hitatölur á öllu landinu um helgina,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Veðurspáin fyrir næstu daga

Gengur í suðaustan 15-25 m/s upp úr hádegi, hvassast SV til. Skýjað að mestu og dálítil rigning S og V til. Suðaustan 13-23 og víða rigning í fyrramálið, hvassast syðst, en þurrt fyrir norðan. Dregur síðan úr vindi og úrkomu, en rignir áfram talsvert SA til. Hiti 5 til 13 stig, hlýjast SV-lands.

Á laugardag:
Suðaustan 13-23 m/s, hvassast syðst og rigning á S-verðu landinu, jafnvel mikil úrkoma á SA-landi, en þurrt að kalla fyrir norðan. Dregur heldur úr vindi er líður á daginn. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast á N-landi.

Á sunnudag:
Suðlæg átt, strekkingur og rigning austast, en annars hægari, bjart með köflum og hiti 6 til 12 stig.

Á mánudag og þriðjudag:
Allhvöss eða hvöss austlæg átt með talsverðri rigningu A-til, en úrkomulítið V-lands og áfram milt í veðri.

Á miðvikudag og fimmtudag:
Útlit fyrir norðaustanátt með rigningu N-lands, en víða bjartviðri fyrir sunnan og kólnar lítillega.

mbl.is