„Við þurfum að vera á varðbergi“

Viðar segir mikilvægt að kenna ungum íþróttaiðkendum góð gildi svo …
Viðar segir mikilvægt að kenna ungum íþróttaiðkendum góð gildi svo að þeir geti staðið í fæturna gegn óæskilegri hegðun.

Dr. Viðar Halldórsson félagsfræðingur segir að með aukinni þátttöku Íslands í alþjóðastarfi íþrótta sé aukin hætta á því að neikvæðar hliðar íþróttastarfs á borð við mútur, lyfjamisnotkun og veðmál ryðji sér til rúms hér á landi. 

„Við höfum alltaf verið í frekar saklausu og vernduðu íþróttaumhverfi á Íslandi. En við erum núna orðin partur af þessu alþjóðaumhverfi íþróttanna og þar sjáum við alls konar hluti eins og mútur, lyfjamisnotkun, veðmálamisferli, alls konar hrokafulla hegðun sem lærist og margt fleira. Þetta er að vaxa og aukast alls staðar í íþróttaheiminum og við þurfum að vera á varðbergi því þetta seytlar hingað inn eins og alls staðar annars staðar,“ segir Viðar í samtali við mbl.is. 

Viðar hélt erindi á ráðstefnu um íþróttir og áhrif móta á unga iðkendur í Háskólanum í Reykjavík í gær. Sagði hann meðal annars að mikilvægt væri að stemma sigu við óæskilegri hegðun innan íþróttahreyfingarinnar og ala upp kynslóð íþróttafólks sem geti staðið í fæturna gegn slíkri hegðun.

Getum ekki stjórnað öllu innan íþróttahreyfingarinnar

Viðar segir veðmál í íþróttum á Íslandi hafa aukist talsvert.

„Maður veit að veðmál eru að verða vandamál á Íslandi. Erlendir aðilar eru farnir að veðja á leiki á Íslandi og leiki í yngri flokkum. Það eru leikmenn á Íslandi sem eru að skiptast á upplýsingum um liðin sín, hverjir eru meiddir og allt þetta og svo er verið að veðja á þessa leiki.“

Viðar Halldórsson íþróttafélagsfræðingur.
Viðar Halldórsson íþróttafélagsfræðingur. Mbl.is/Valgarður

„Út af smæð samfélagsins og skipulaginu hérna á Íslandi hefur verið frekar auðvelt að halda utan um svona hingað til. En með þessu alþjóðlega umhverfi breytist þetta. Erlend veðmálafyrirtæki hafa ekkert með Ísland að gera en geta tengst Íslandi svo það verður miklu erfiðara fyrir okkur að halda utan um þetta eða banna það. Við erum undir áhrifum frá alþjóðaíþróttasamfélaginu og öllu því sem þar gerist. Við erum ekki bara eitthvert eyland sem getur stjórnað öllu innan íþróttahreyfingarinnar,“ segir Viðar. 

Viðar er annar tveggja hugmyndasmiða að verkefninu Sýnum karakter sem er samstarfsverkefni ÍSÍ og UMFÍ. Hugmyndafræði verkefnisins byggir á því að hægt sé að þjálfa og styrkja sálræna og félagslega færni iðkenda rétt eins og líkamlega færni. 

„Við höfum ekki verið með atvinnumannaíþróttastarf á Íslandi og höfum kannski verið með öðruvísi skipulag en víða annars staðar. En út af snjallvæðingu og auknum árangri Íslands í íþróttum er Ísland svona að komast á kortið í afreksíþróttum sem gerir það að verkum að Ísland er bara þátttakandi í afreksumhverfi. Allir þessir neikvæðu þættir afreksstafsins eru að læðast hingað inn í íslenskt íþróttalíf,“ segir Viðar. 

Fáum bæði það versta og besta inn í íslenskan íþróttaheim

„Við erum með fullt af íþróttamönnum sem fara utan og þeir smitast af ýmsu neikvæðu þar eins og þeir læra margt jákvætt. Við fáum margt af því besta sem gerist sem hluti af alþjóðaumhverfi íþrótta, en við fáum líka margt af því versta sem gerist inn til Íslands. 

„Með Sýnum karakter viljum við með því að efla iðkendur þegar þeir eru yngri vera betur í stakk búin til að sýna góðan karakter, vera heiðarleg og láta ekki fallast í freistni fyrir einhverjum gylliboðum,“ segir Viðar. 

„Við þurfum að fræða og efla iðkendurna okkar svo að þeir hafi gott sjálfstraust og góð gildi sem við leggjum upp með.“

Viðar segir mikil tækifæri vera á Íslandi til þess að kenna íslenskum íþróttaiðkendum góð gildi, meðal annars vegna smæðar samfélagsins. 

„Á Íslandi höfum við tækifæri til að mennta alla sem stunda íþróttir mjög vel. Við erum með þessa krakka í íþróttum oft í viku, öfluga foreldra og þjálfara og góð gildi í starfinu þannig að við erum í kjörstöðu til að hafa jákvæð áhrif á iðkendur íþrótta á öllum stigum. 

„Það eru rosaleg tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á iðkendur. Íþróttastarfið á Íslandi er ólíkt því sem er víða erlendis þar sem er kannski erfiðara að halda utan um þessa hluti. Þetta eru hlutir sem við ættum að huga og hlúa að og reyna að gera enn betur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert