Efla seiglu og vellíðan nemenda með núvitund

Samkvæmt frumniðurstöðum á rannsókn á núvitund sýna þær að marktækur …
Samkvæmt frumniðurstöðum á rannsókn á núvitund sýna þær að marktækur munur er á núvitund, samkennd í eigin garð og streitu. mbl.is/Golli

„Við erum farin að heyra það skýrt frá skólanum hvað kennsla núvitundar skiptir miklu máli. Hver og einn einstaklingur fær aðferðir til að takast á við daglegar áskoranir, efla vellíðan og seiglu og það er til mikils að vinna,“ segir Bryndís Jóna Jónsdóttir, aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og núvitundarkennari, um innleiðingu á heildrænni nálgun á núvitund í skólastarfi. 

Bryndís greindi frá stöðu og þróun á innleiðingarferli núvitundar í þrjá grunnskóla í dag í erindi sem hún hélt á Menntakviku, ráðstefnu Menntavísindasviðs um það sem er efst á baugi í menntavísindum.    

Frá árinu 2017 hefur verið unnið að þróun á heildrænni innleiðingu núvitundar í grunnskóla í samvinnu við Embætti landlæknis. Frá árinu 2018 hefur verið markvisst unnið að þróun og innleiðingu núvitundar í þrjá grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu auk tveggja annarra samanburðarskóla. Verkefnið er tvíþætt, annars vegar heildræn innleiðing sem nær til alls skólans, frá 1. - 10. bekkjar. Hins vegar er rannsóknarhluti verkefnisins sem snýr að kennurum og nemendum fæddum árið 2005 og 2006 hann er unninn í samvinnu við Háskóla Íslands. 

Bryndís í núvitundaræfingu ásamt 6 ára nemendum Áslandsskóla.
Bryndís í núvitundaræfingu ásamt 6 ára nemendum Áslandsskóla. Ljósmynd/Aðsend

Unnið er með skólunum markvisst í 2 ár. Á fyrra árinu er unnið eingöngu með kennurunum. Teymi innan skólans er stofnað sem stuðlar að því að kennararnir aðlagi þetta að skólamenningunni á hverjum stað. Seinna árið fá kennararnir þjálfun í að kenna nemendum núvitund. Námsefni nemenda er þrenns konar, fyrir yngsta, mið og elsta stig og byggir á gagnreyndum aðferðum. 

Mikilvægt að vera með íslenskar rannsóknir

„Núvitund hefur mikið verið rannsökuð erlendis en það er mikilvægt að vera með íslenskar rannsóknir líka. Ástæðan fyrir því að Embætti landlæknis leitar til okkar er sú að það er mikill áhugi á þessu og það þurfa ekki allir að finna upp hjólið,“ segir Bryndís. Hún bendir á að það sé mikilvægt að byggja á gagnreyndum aðferðum. Við undirbúning á innleiðingunni var unnið að því að skoða hvað hefur virkað og hverju er ábótavant í kennslu núvitundar erlendis. 

„Það hefur jákvæð og góð áhrif þegar krakkarnir hafa tækifæri til að kynnast þessu. Til lengri tíma litið er árangursríkara að nota þessa heildræna nálgun,“ segir Bryndís um tilurð verkefnisins. Í þessu samhengi tekur hún fram að fjölmargt áhugavert sé að gerast í kennslu núvitundar í skólum landsins samanber kennsla núvitundar í Giljaskóla á Akureyri svo fátt eitt sé nefnt. „Fullt af kennurum víða um land eru að vinna á þessum nótum og eru að kenna nemendunum. Það er búið að prófa margt skemmtilegt í þessum efnum,“ segir Bryndís. 

Samkvæmt frumniðurstöðum á rannsókninni sýna þær „að allar tölur eru í rétta átt. Marktækur munur er á núvitund, samkennd í eigin garð og streitu hjá kennurum,“ segi Bryndís. 

Steitan minni og meiri samkenndi í eigin garð 

Á meðal nemenda mælist samkennd í eigin garð marktækt meiri. Allar tölur mælast í jákvæða átt þrátt fyrir að þær séu ekki enn marktækar.  „Það er ofboðslega mikilvægt á þessum þroskaárum. Þetta er krakkar í 7. og 9. Bekk. Þetta eru krakkar sem eru að fara í gegnum þroskaskeið þar sem þau eru mjög gagnrýnin á sjálfan sig. Þau fá tækifæri til að snúa þeirri þróun við og fá leiðir til að styðja sig í að mæta sér af mildi þegar þau takast á við erfiðleika. Það hefur sýnt sig að það hefur áhrif á seiglu að efla tilfinningalega færni í því,“ segir Bryndís. 

Hinar tölurnar mælast í jákvæða átt þrátt fyrir að þær séu ekki enn marktækar. Verkefninu er ekki lokið og liggur því ekki loka niðurstaða fyrir. Síðustu mælingar í þessari rannsókn verða í janúar á næsta ári. 

mbl.is