Heimsmeistari í frosnum fingravettlingum

Ólafía Kvaran er heimsmeistari í Spartan-hlaupinu, þrek- og hindrunarhlaupi, í …
Ólafía Kvaran er heimsmeistari í Spartan-hlaupinu, þrek- og hindrunarhlaupi, í flokki kvenna 40-49 ára, fyrst Íslendinga. Ljósmynd/Aðsend

Ólafía Kvaran varð á dögunum fyrsti Íslendingurinn sem hrósar sigri á heimsmeistaramóti í hindrunar- og þrekhlaupinu Spartan Race. Ólafía er heimsmeistari í sínum aldursflokki og var reynslunni ríkari frá því í fyrra þegar hún tók þátt í sama hlaupi, fyrst Íslendinga, og hafnaði í fjórða sæti.

Hlaupið fór fram í Squaw Valley í Lake Tahoe í Kaliforníu þarsíðustu helgi. Hlaupið er 24 kílómetrar með 1.400 metra hækkun þar sem hlaupið er upp á tvö fjöll og í gegnum 36 hindranir. Hæst hljóp Ólafía í 2.700 metra hæð. 

Spartan Race er hindrunarhlaup þar sem keppendur takast á við ýmiss konar hindranir á hlaupaleiðinni, sem er utanvega, og oft með töluverðri hækkun.  Íþróttin nýtur gífurlegra vinsælda í Bandaríkjunum og keppendum fer jafnframt fjölgandi í Evrópu og Asíu, en keppt er í greininni í um það bil 40 löndum í heiminum.   

„Ég fór á heimsmeistaramótið í fyrra og endaði í fjórða sæti og var hrikalega ánægð með það en strax í upphafi árs setti ég mér það markmið að prófa aftur og reyna að komast aftur inn og það gekk eftir en var svolítil vinna,“ segir Ólafía í samtali við mbl.is. Hún tók þátt í Spartan-hlaupi í júní þar sem hún tryggði sér þátttökurétt á Norður-Ameríku-móti í Spartan-hlaupi. Það hlaup fór fram í lok ágúst og þar tryggði hún þátttökuréttinn á heimsmeistaramótinu, annað árið í röð. 

„Ég endaði í fjórða sæti í New York í júní og líka á Norður-Ameríku-mótinu. Ég er greinilega eitthvað negld við þetta fjórða sæti. En þar fannst mér að ég hefði átt að geta gert betur og var drulluspæld, það munaði svo litlu.“ 

Hindrarnirnar eru af ýmsum toga og segir Ólafía að reynsla …
Hindrarnirnar eru af ýmsum toga og segir Ólafía að reynsla hennar úr bootcamp hafi komið sér vel þegar hún tókst á við hindranirnar. Ljósmynd/Aðsend

Íslenskt vetrarveður í Kaliforníu

Hún var því spennt að láta til sín taka á heimsmeistaramótinu í lok september. Veðrið setti hins vegar strik í reikninginn á keppnisdag en Ólafía lét það ekki á sig fá. „Það var alveg í kortunum að það myndi kólna, sem það gerði skyndilega og veturinn kom. Ég bjóst alveg við að það yrði kalt en kannski ekki snjókoma og frost. Þetta var eins og íslenskt vetrarveður.“  

Sökum veðurs tafðist ræsing í hlaupinu um tvo klukkutíma á meðan skipuleggjendur mátu aðstæður og tryggðu öryggi keppenda. „Þeir tóku út eina hindrun þar sem maður þurfti að fara í kaf þar sem þeir vildu ekki að við myndum hlaupa með blautt hár,“ segir Ólafía. 

Hindranirnar voru allt frá sundi í að klifra yfir 2,5 metra háan kassa. Kassaklifrið reyndist Ólafíu einmitt erfiðast en það var ein af hindrununum 36 sem henni tókst ekki að ljúka. Því þurfti hún að taka út refsingu: 30 burpees. „Kassinn gaf ekkert grip, ég reyndi að hífa mig upp en hékk bara utan á kassanum.“

„Mér hlýnaði aldrei þar sem fötin þornuðu aldrei“

100 keppendur alls staðar að úr heiminum vinna sér inn keppnisrétt í hverjum aldurflokki og það er líklega merki um hversu erfiðar aðstæðurnar voru að aðeins 31 keppandi kláraði í aldursflokki Ólafíu, 40-49 ára. „Það voru mjög margar sem voru teknar úr brautinni eftir sundið þar sem þær ofkældust,“ segir hún. 

Ólafa segir hlaupið hafa verið skemmtilegt en á sama tíma ögrandi, sérstaklega vegna kuldans. „Ég var svo sem ekki hrædd við kuldann áður en ég lagði af stað. Maður er alveg vanur kuldanum, en það kom mér á óvart hvað mér varð kalt. Ég hélt að mér myndi hitna um leið og ég færi af stað að hlaupa eins og maður er vanur hérna heima, en það var bara svo gríðarlega kalt. Þegar ég byrjaði að hlaupa eftir sundið frusu vettlingarnir og ég komst ekki einu sinni ofan í fingurna, fingravettlingarnir frusu. Mér hlýnaði aldrei þar sem fötin þornuðu aldrei,“ segir Ólafía og viðurkennir fúslega að hún hafi verið alveg búin á því að hlaupi loknu. 

„Um leið og ég fattaði að troða vettlingunum inn á mig varð þetta auðveldara,“ segir Ólafía. Hún mátti ekki henda vettlingunum frá sér þar sem hún varð að ljúka hlaupinu með allan þann búnað sem var með í upphafi. „Ég var hrikalega fegin þegar þetta var búið,“ segir Ólafía, sem fagnaði sigrinum með heitri sturtu. 

Ólafía var alls fjórar klukkustundir, átta mínútur og 34 sekúndur …
Ólafía var alls fjórar klukkustundir, átta mínútur og 34 sekúndur að hlaupa kílómetrana 24. Sigurinn var sérstaklega sætur þar sem Ólafía sigraði sinn helsta keppinaut sem sigraði á Norður-Ameríku-mótinu í ágúst. Ljósmynd/Aðsend

Sætt að sigra sinn helsta keppinaut

Ólafía var alls fjórar klukkustundir, átta mínútur og 34 sekúndur að hlaupa kílómetrana 24. Sigurinn var sérstaklega sætur þar sem Ólafía sigraði sinn helsta keppinaut sem sigraði á Norður-Ameríku-mótinu í ágúst. „Hún var eina nafnið sem ég þekkti og er búin að stunda þetta í mörg ár og er til að mynda búin að hlaupa 22 Spartan-hlaup á þessu ári og hefur alltaf unnið. Það var svolítið sætt að vinna hana. Ég tók fram úr henni á leiðinni og varð svo hissa að ég kallaði á hana og spurði hvort það væri í lagi með hana og hvatti hana áfram. Hún var alveg búin á því en hún samgladdist mér.“

Ólafía leiddist út í Spartan-hlaup af algjörri tilviljun en litlum hópi frá Íslandi var boðið að taka þátt á heimsmeistaramótinu í liðakeppni í Spartan-hlaupi fyrir tveimur árum. „Mér fannst þetta svo gaman og ég hugsaði að ég yrði að prófa þetta aftur,“ segir Ólafía, sem hefur nú öðlast þjálfararéttindi í Spartan-hlaupum og hefur haldið Spartan-námskeið hér á landi sem endaði með hópferð í Spartan-hlaup erlendis. 

Meðal hindrana sem Ólafía þurfti að kljást við var að …
Meðal hindrana sem Ólafía þurfti að kljást við var að bera ýmsa hluti meðan á hlaupinu stóð, skríða undir gaddavírsgirðingar, synda í ísköldu vatni og klifra yfir 2,5 metra háan kassa. Ljósmynd/Aðsend

Ætlar að smita fleiri af „Spartan-áhuganum“

Bakgrunnur Ólafíu liggur til dæmis í bootcamp sem hún hefur stundað í rúman áratug og segir hún „bootcamp-formið“ svo sannarlega hafa hjálpað sér að takast á við hindranirnar. „Svo hef ég alltaf hlaupið í skorpum. Fram að þessu hef ég ekki litið á mig sem hlaupara en ég hef haft styrkinn sem bootcamp-ari.“ 

Ólafía er eini Íslendingurinn sem hefur tekið þátt í heimsmeistaramótinu í Spartan-hlaupi og hún setur markið hátt.  „Auðvitað ætla ég að gera eitthvað meira og næsta sem er í kortunum er að reyna að smita fleiri af þessu. Næsta sem er í bígerð er að setja saman aðra hópferð í Spartan-hlaup í vor.“ 

Leiðin á heimsmeistaramótið er löng og ströng, að minnsta kosti tvö úrtökumót, en Ólafía er sannfærð að fleiri Íslendingar muni ná langt í heimi hindrunarhlaupa á næstu árum. „Ég hef sagt við fullt af fólki að bara gera þetta, ég held að við eigum fullt erindi þarna inn.“

Ólafía segir hlaupið hafa verið skemmtilegt en á sama tíma …
Ólafía segir hlaupið hafa verið skemmtilegt en á sama tíma ögrandi, sérstaklega vegna kuldans. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert