Ökumaður tilkynntur til barnaverndar

mbl.is/​Hari

Lögreglan stöðvaði för bifreiðar sem var ekið 126 km hraða þar sem heimilt er að aka á 80 km/klst. á Reykjanesbraut í gærkvöldi. Ökumaðurinn sem er aðeins 17 ára hafði ekki ökuskírteini sitt meðferðis. Málið afgreitt með aðkomu móður og tilkynningu til barnaverndar.

Maður í annarlegu ástandi var í Árbænum síðdegis í gær grunaður um nytjastuld bifreiðar, að hafa stungið af eftir að hafa ekið á tveir bifreiðar, akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum og ýmis önnur umferðarlagabrot. Maðurinn er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu, að því er segir í dagbók lögreglunnar.

Lögreglan stöðvaði för bifreiðar á Bústaðavegi í nótt en ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, akstur án réttinda, þ.e. hafði ekki endurnýjað réttindi sín, vörslu fíkniefna og brot á lyfjalögum. Farþegi í bifreiðinni er grunaður um vörslu fíkniefna og brot á lyfjalögum.

Maður í annarlegu ástandi handtekinn í Árbænum um miðnætti grunaður um innbrotstilraun. Maðurinn flúði af vettvangi er húsráðandi kom að honum en fannst skömmu síðar. Maðurinn er vistaður í fangageymslu lögreglu sökum ástands.

Lögreglan stöðvaði för ökumanns sem er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna í Kópavoginum í gærkvöldi. 

mbl.is