Beitti unnustu sína grófu ofbeldi

Maðurinn var handtekinn og hann úrskurðaður í gæsluvarðhald til 18. …
Maðurinn var handtekinn og hann úrskurðaður í gæsluvarðhald til 18. október. mbl.is/Eggert

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 18. október vegna hættulegrar líkamsárásar og kynferðisofbeldis gegn unnustu sinni. Brotin framdi maðurinn í vesturbæ Reykjavíkur í gær, að því er fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2. Þar segir enn fremur að konan hafi verið færð alvarlega slösuð á sjúkrahús.

Haft er eftir Ævari Pálma Pálmasyni, yfirmanni kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að skoðað sé hvort um sé að ræða það alvarlega líkamsárás að hún sé metin sem tilraun til manndráps.

Í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins segir að maðurinn hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknar- og almannahagsmuna að kröfu lögreglunnar í þágu rannsóknar hennar á ætluðu kynferðisbroti, líkamsárás og heimilsofbeldi. 

Fram kom í fréttum Stöðvar 2 að árásarmaðurinn hafi losnað úr fangelsi í sumar og hafi hlotið dóma meðal annars fyrir heimilisofbeldi og önnur ofbeldisbrot. Um verulega hættulegan mann sé að ræða.

mbl.is