Ákærður fyrir kynferðisbrot fyrir utan skemmtistað

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Karlmaður hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir nauðgun, en til vara fyrir kynferðislega áreitni, með því að hafa í september á síðasta ári strokið yfir rass og kynfæri konu, bæði innanklæða- og utanklæða, fyrir utan skemmtistað í Reykjanesbæ. Stakk hann því næst fingri inn í leggöng konunnar á hennar samþykkis.

Í ákærunni kemur fram að brotið varði 1. málsgrein 194. greinar almennrar hegningarlag, en til vara við 199. grein sömu laga.

Fyrri greinin tekur á nauðgun og hljóðar svo: „Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.“

Seinni greinin tekur á kynferðislegri áreitni og hljóðar svo: „Hver sem gerist sekur um kynferðislega áreitni skal sæta fangelsi allt að 2 árum. Kynferðisleg áreitni felst m.a. í því að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan, enn fremur í táknrænni hegðun eða orðbragði sem er mjög meiðandi, ítrekað eða til þess fallið að valda ótta.“

Konan fer auk þess fram á 1,15 milljónir í miskabætur vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert