Auðlindir Íslands mikil blessun

Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Finnur Beck, forstjóri …
Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Finnur Beck, forstjóri HS Orku, og Rick Perry, orkumálaráðherra Bandaríkjanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Flest lönd myndu gefa hvað sem er til þess að búa yfir slíkri auðlind,“ sagði Rick Perry, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, við blaðamenn þegar hann heimsótti jarðvarmaorkuver HS Orku að Svartsengi í dag. Perry er staddur hér á landi einkum til þess að sækja ráðstefnuna Arctic Circle sem hefst á morgun hvar hann er á meðal ræðumanna.

Ráðherrann kom beint frá Keflavíkurflugvelli að Svartsengi og var upphaflega gert ráð fyrir að heimsóknin þangað tæki í kringum hálftíma. Hins vegar teygðist talsvert á henni og virðist ástæða þess fyrst og fremst hafa verið mikill áhugi Perrys á starfsemi jarðvarmaorkuversins. Finnur Beck, forstjóri HS Orku, tók á móti ráðherranum ásamt starfólki og fræddi hann um starfsemina. Síðan var farið í skoðunarferð um orkuverið.

Finnur Beck, Jeffrey Ross Gunter og Rick Perry.
Finnur Beck, Jeffrey Ross Gunter og Rick Perry. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Perry sagði við blaðamenn að hann hefði sagt við Finn að það væri mikil blessun að búa í landi sem byggi yfir slíkum auðlindum, sem hægt væri að nýta til þess að framleiða rafmagn, hita heimili landsmanna og knýja efnahagslífið, sem væru í raun Guðs gjöf.

Sagðist ráðherrann sjá ákveðna hliðstæðu í þeirri tækni sem notuð hefði verið hér á landi til að virkja jarðvarma og þeirri tækni sem Bandaríkjamenn notuðu við vinnslu á gasi. Bandaríkjastjórn væri að kanna möguleika á að nýta þá tækni sem notuð væri við gasvinnslu til þess að nýta jarðvarma til að mynda í Utah-ríki.

Finnur Beck útskýrir fyrir Rick Perry hvernig orkuverið starfar.
Finnur Beck útskýrir fyrir Rick Perry hvernig orkuverið starfar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Perry sagði ljóst að jarðvarmi væri ein af þeim auðlindum sem Bandaríkjamenn væru áhugasamir um að nýta frekar og fyrir vikið væri frábært ef hægt yrði að koma á samstarfi við Íslendinga um nýtingu þeirrar tækni sem notuð hefði verið í þeim efnum hér á landi.

Spurður um Norðurslóðir, sem ráðstefnan Arctic Circle fjallar um, sagði Perry ljóst að aukinn áhugi hefði vaknað á svæðinu eftir að auðveldara varð að ferðast um það. Ríki eins og Kína, Rússland og Bandaríkin, auk Evrópusambandsins, hefðu mikinn áhuga á því.

Perry var einnig inntur eftir viðbrögðum við áformum demókrata á Bandaríkjaþingi um að reyna að kæra Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir brot í embætti vegna símtals hans við Volodimír Zelenskí, forseta Úkraínu. Sagðist ráðherrann ekkert skilja í þeim fyrirætlunum. Þær væru algerlega út í hött.

Ráðherrann var einnig spurður um fréttir í fjölmiðlum vestanhafs þess efnis að hann væri á útleið úr embætti. „Þeir hafa verið að skrifa fréttir um það í einhverja níu mánuði að ég sé á leið út. Einn daginn, ef þeir halda áfram að segja það, mun það verða rétt. Ég verð ekki olíumálaráðherra að eilífu.“

mbl.is