Allt að 135% verðmunur á laxi í sneiðum

Mesti verðmunurinn var á laxi í sneiðum, 135% eða 2.238 …
Mesti verðmunurinn var á laxi í sneiðum, 135% eða 2.238 kr. munur á kílóinu. mbl.is/Helgi Bjarnason

Þrjár ódýrustu fiskbúðirnar eru í Hafnarfirði samkvæmt nýrri verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ. Litla fiskbúðin Helluhrauni var oftast með lægsta verðið, í 15 tilvikum af 30, en Fylgifiskar Borgartúni var oftast með hæsta verðið eða í 8 tilvikum. 

Oftast var mjög mikill munur á hæsta og lægsta verði í könnuninni. Á 10 af þeim 30 vörum sem kannaðar voru reyndist 40-60% munur á hæsta og lægsta verði og í 15 tilfellum var yfir 60% verðmunur. Mesti verðmunurinn var á laxi í sneiðum, 135% eða 2.238 kr. munur á kílóinu. Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Fjórar verslanir neituðu að taka þátt

Fjórar verslanir neituðu fulltrúum verðlagseftirlitsins um þátttöku í könnuninni. Þetta voru Fiskbúðin Hafberg, Fiskbúð Fúsa, Melabúðin og Fiskbúðin Vegamót.

Algengast var að munur á hæsta og lægsta verði væri yfir 60% en í 15 tilfellum af 30 var munurinn yfir 60%, þarf af í 5 tilfellum yfir 80%. Í 10 tilfellum var munurinn á hæsta og lægsta verði 40-60% en einungis í 5 tilfellum undir 40%. Mestur verðmunur var á laxi í sneiðum en hæsta verðið var 135% hærra en það lægsta. Hæsta verðið var í Fylgifiskum, 3.900 kr. en það lægsta í Fjarðarkaupum, 1.662 kr. kg.

Næstmestur var munurinn á kílóverðinu af frosnum fiskibollum, 124%, sem voru dýrastar í Gallerý fiski, 1.990 kr., en ódýrastar í Fisk kompaní á Akureyri, 890 kr. kg. Einnig var mikill verðmunur á ýsuhakki sem var dýrast í Hafinu, 1.990 kr., en ódýrast í Litlu fiskbúðinni Hafnafirði, 990 kr. kg. og munar því 1.000 kr. á kílóverðinu eða 110%.

Könnunin var gerð í vikunni

Könnunin var gerð á fiski og fiskafurðum í 19 fiskbúðum og öðrum verslunum með fiskborð miðvikudaginn 9. október 2019. Kannað var verð á 30 algengum tegundum fiskafurða. Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum: Fiskbúðinni Sundlaugarvegi, Fiskbúðinni Trönuhrauni, Fiskikónginum Sogavegi, Litlu fiskbúðinni Helluhrauni, Hafinu fiskverslun í Hæðarsmára, Fiskbúð Hólmgeirs, Gallerý fiski Nethyl, Fiskbúð Sjárvarfangs Ísafirði, Fiskbúðinni Mos, Fisk kompaní Akureyri, fiskborðinu í Hagkaupum Kringlunni, fiskborðinu Fjarðarkaupum, Fiskverslun Hveragerðis, Fiskbúð Suðurlands Selfossi og Fylgifiskum Borgartúni.

Hæstu verðin eru eldrauð en þau lægstu dökkgræn.
Hæstu verðin eru eldrauð en þau lægstu dökkgræn. kort/Alþýðusamband Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert