Allt brauð búið

Finnur í aðeins skárra veðri en nú gengur yfir.
Finnur í aðeins skárra veðri en nú gengur yfir. Ljósmynd/Aðsend

Stærsti fellibylur í 60 ár gengur nú yfir Japan. Bylurinn kom að landi við Izu-skaga suðvestan af Tókýó um klukkan tíu í morgun að íslenskum tíma, klukkan sjö að kvöldi að staðartíma, og stefnir nú í austurátt með hraðanum 225 km/klst.

Finnur Malmquist, nemi í eðlisfræði, er búsettur í Tókýó. Hann segir að óveðrið hafi náð hámarki fyrir um klukkustund, en nú sé tekið að lægja á ný. Mikil rigning fylgir bylnum og var spáð sólarhringsúrkomu upp á 1.000 millimetra. Til samanburðar var úrkomumet fyrir árið hérlendis sett í síðasta mánuði er rúmlega 140 millimetra úrkoma mældist á Snæfellsnesi á einum sólarhring. Fyrir vikið segir Finnur að allar götur séu fullar af vatni, og ár hafi flætt yfir bakka sína.

Íbúum Tókýó var ráðlagt að búa sig undir það versta og birgja sig upp af mat. Því fylgdi Finnur að sjálfsögðu samviskusamlega. Hann segir að fátæklegt hafi verið um að litast í verslunum, og lítið eftir að brauði og öðrum mat sem ekki þarf að kæla.

50.000 Japanir hafa fylgt ráðum stjórnvalda á vissum svæðum og yfirgefið heimili sín, en sjö milljónir manna búa á svæðum þar sem íbúar hafa verið hvattir til að yfirgefa heimili sín. Lestarferðir liggja niðri auk þess sem yfir þúsund flugferðum hefur verið aflýst.

Í samtali við tíðindamann mbl.is í Japan segir Íslandsvinurinn Vematsu, íbúi í Osaka, næststærstu borg landsins, að þar á bæ sé veðrið að skána. Hvasst hefur verið og mikil rigning, en nú sé tekið að lægja. Fellibylurinn stefni enda beint að höfuðborginni, Tókýó, í öfuga átt við Osaka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert