Segir endurgreiðsluna formsatriði sem breyti engu

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður og skiptastjóri þrotabús EK1923.
Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður og skiptastjóri þrotabús EK1923. mbl.is/Eggert

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður og skiptastjóri þrotabús EK1923, segir að niðurstaða héraðsdóms um að hann eigi að endurgreiða þrotabúinu skiptakostnað sé í raun formsatriði sem engu breyti fyrir heildarmeðferð málsins.

„Ég er ósammála þessari ákvörðun en það er ekkert við henni að segja. Þetta verður að sjálfsögðu greitt til baka strax,“ segir Sveinn Andri í samtali við mbl.is.

Í gær komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að Sveinn hefði ekki upplýst kröfuhafa á formlegan hátt um ætlaðan skiptakostnað og tímagjald sitt sem skiptastjóra. Hafði hluti kröfuhafa farið fram á að skiptaþóknun sem hann hafði þegið, upp á um 100 milljónir, yrði endurgreidd til búsins. Féllst dómurinn á það með kröfuhöfunum.

„Þetta snýst um að dómarinn taldi ekki fullnægjandi bókað í fundargerð skiptastjóra varðandi kostnaðinn,“ segir Sveinn Andri og bætir við að um sé að ræða skýrt formsatriði sem engu breyti. Þannig greiði þrotabúið alltaf skiptakostnað, eins og dómarinn hafi nefnt í ákvörðun sinni, en nú þurfi að fara að þessum ábendingum dómarans áður en það verði gert.

Bendir Sveinn á að 75% kröfuhafa hafi lýst því yfir að þeir styðji verklag skiptastjórans og þau dómsmál sem farið hefur verið í, auk þess sem 14% hafi ekki gert neinar athugasemdir. Segir hann þennan hóp kröfuhafa hafa tekið fram að hann teldi sig hafa fengið fullnægjandi kynningu á skiptakostnaðinum.

Segir hann lögmann kröfuhafanna sem gerðu athugasemdir við vinnubrögð sín gæta andstæðra hagsmuna annarra kröfuhafa í málinu sem vilji fá kröfur sínar greiddar. Vísar hann þar til þess að lögmaðurinn sé einnig lögmaður félagsins Stjörnunnar sem þrotabúið hefur átt í málaferlum við og er einnig í eigu fyrrverandi eiganda EK1923.

Sveinn segir aðfinnslur dómsins vera nýtt verklag og í flestum tilfellum þegar um skiptabú sé að ræða sé bókað um ætlaðan skiptakostnað. Hins vegar sé ekki annað í stöðunni en að verða við þessum athugasemdum.

mbl.is