Fólk missir heilsuna í skugga ofurhagnaðar

Drífa Snædal, forseti ASÍ, á formannafundinum.
Drífa Snædal, forseti ASÍ, á formannafundinum. mbl.is/Árni Sæberg

Við höfum náð góðum árangri og það er ekki síst sterkri verkalýðshreyfingu að þakka en óvíða hefur hreyfing launafólks haft jafn mikil áhrif og hér á landi. Þetta kom fram í ræðu Drífu Snædal, forseta ASÍ, á formannafundi aðildarfélega Alþýðusambands Íslands.

Á meðan nágrannaþjóðir okkar tóku ákvarðanir í ríkisstjórn um uppbyggingu félagslegs húsnæðis þá tók verkalýðshreyfingin á Íslandi þann bolta. Sama má segja um mörg önnur félagsmál sem bæta lífsgæðin. Það má því með sanni segja að verkalýðshreyfingin hafi verið stór hluti af uppbyggingu velferðarkerfisins hér á landi, stærri en í flestum öðrum löndum,“ sagði Drífa.

Hvenær er verið að firra stjórnvöld ábyrgð?

Hún sagði að sum velferðarmálanna ættu með réttu að vera í höndum stjórnvalda og spurði hvenær verkalýðshreyfingin væri að firra stjórnvöld ábyrgð á sameiginlegri velferð. Sem betur fer eigi verkalýðshreyfingin í samtali við ríkisstjórn, veiti aðhald og beiti þrýstingi, ólíkt ýmsum öðrum stöðum þar sem hvorki sé samtal við atvinnurekendur né stjórnvöld.

En þó að við komum vel út í alþjóðasamanburði þá er það ekki tilefni til að setjast með hendur í skauti. Staðan er langt frá því að teljast ásættanleg og ógnirnar eru víða. Það er ekki nóg að vera best í jafnrétti þegar jafnrétti hefur ekki verið náð. Það er ekki ásættanlegt að byggja góð hús þegar það er fólk sem býr ekki enn við húsnæðisöryggi og það er ekki í lagi að hafa náð árangri í bættum kjörum þegar fólk býr enn við fátækt og óttast um afkomu sína,“ sagði Drífa.

Hún bætti við að þegar eitt fyrirtæki hagnist um 8,7 milljarða á ári á meðan fólk missi heilsuna og sé dæmt í fátækt sé eitthvað mikið að. Þegar heilu kaupstaðirnir þurfi að treysta á góðvild atvinnurekenda til að þrífast og lifa í stöðugum ótta við að arður og atvinnutækifæri séu flutt á milli byggðarlaga sé ekki allt í lagi.

Á meðan fólk nær ekki endum saman er staðan ekki í lagi

Á meðan jafn mikill ójöfnuður ríkir og raun ber vitni hefur verkalýðshreyfingin verk að vinna. Á meðan það er fólk í okkar samfélagi, hvort sem það er utan eða innan vinnumarkaðar, sem nær ekki endum saman er staðan ekki í lagi,“ sagði Drífa.

Verkalýðshreyfingin hafi þrátt fyrir allt, að mati Drífu, náð árangri síðastliðið ár. Skattþrepum hafi fjölgað, stórsókn gegn launaþjófnaði sé undirbúin og húsnæðisöryggi verði eflt. „Verkalýðshreyfingunni er ekkert óviðkomandi enda er vinnandi fólki ekkert óviðkomandi,“ sagði Drífa.

Hún sagði að ASÍ þyrfti stöðugt að vera á varðbergi til að passa upp á að þau markmið sem náðust síðasta vetur haldi. Nefndi hún í því samhengi hugmyndir um lækkun erfðafjárskatts og veggjöld. Drífa sagði veggjöld að vísu óútfærð og því erfitt að vera með eða á móti. Það að setja almennan nefskatt eins og veggjöld sem sé íþyngjandi fyrir almenning án þess að nokkuð komi í staðinn sé ekki til umræðu.

Örari breytingar en áður

Nú keppast fræðingar við að rýna í framtíðina, hvaða breytingar eru væntanlegar með svokölluðu fjórðu iðnbyltingu og hvaða viðbrögð þurfi að vera við hamfarahlýnun,“ sagði Drífa. Hún sagði breytingarnar í dag hraðari og örari en þær sem áður hefðu verið. 

Drífa sagði að barátta næstu ára og áratuga muni snúast um að vinnufólk fái hlutdeild í þeim arði sem muni skapast með aukinni tækni. Það verði gert með kröfu um hærri laun en ekki síður um styttingu vinnudags.

Slagorðið um átta tíma vinnu, átta tíma svefn og átta tíma ánægju varð frægt um allan heim fyrir hundrað árum og það voru samdir slagarar um slíka kröfu. Krafan um 6 tíma vinnu, eins tíma menntun, níu tíma ánægju og átta tíma svefn er ekki alveg jafn þjál krafa og sennilega ekki innblástur fyrir slagarahöfunda en gæti orðið okkar krafa engu að síður. Það er kominn tími á nýja kröfu hundrað árum síðar.

mbl.is