Segir viðmót LÍN fjandsamlegt

Ólöf segir LÍN hafa komið fram með fjandsamlegu viðmóti og …
Ólöf segir LÍN hafa komið fram með fjandsamlegu viðmóti og hreinlega neitað að afhenda henni gögn vegna málsins. mbl.is/Hjörtur

„Viðmót LÍN er að mínu mati fjandsamlegt og það kom mér mjög á óvart þegar ég fór að óska eftir gögnum að sjóðurinn hreinlega neitaði að afhenda mér öll gögnin,“ segir Ólöf Guðný Valdimarsdóttir arkitekt. 

Ólöf greindi frá samskiptum sínum við Lánasjóð íslenskra námsmanna á Facebook-síðu sinni í síðustu viku. 

„Fyrir 23 árum skrifaði ég upp á skuldabréf, sem ábyrgðarmaður, vegna námsláns hjá LÍN að upphæð kr. 1.099.688. Ábyrgð mín, til tryggingar höfuðstóls lánsins, var kr. 500.000 eða sem nam um 50% af höfuðstólnum. Trú mín var sú að ábyrgðin myndi lækka í samræmi við lækkun á höfuðstól lánsins.

„Í dag þegar greitt hefur verið af láninu í fjölda ára stendur lánið í kr. 1.417.725, en ábyrgð mín er nú kr. 1.366.655 eða tæplega 100% af upphæð lánsins. Með öðrum orðum meðan lánið lækkaði hækkaði ábyrgðin mín,“ skrifar Ólöf á Facebook. 

Ganga á eftir erfingjum af hörku 

Ólöf segir að fjórir hafi upprunalega ábyrgst lánið. Einn þeirra lést árið 2014 og er því ekki lengur ábyrgur fyrir láninu samkvæmt skilmálum skuldabréfsins. Ólöf segir það ekki vera að sjá af þeim gögnum sem hún hefur undir höndum, að LÍN hafi krafist þess að lántakandi fengi nýjan ábyrgðarmann.

„Þvert á móti gengur lánasjóðurinn nú einhliða af hörku að erfingjum hins látna,“ segir Ólöf. 

Ólöf segir LÍN álíta að allir ábyrgðarmenn lánsins beri jafna ábyrgð á öllu láninu og rukka ábyrgðamenn vegna vanefnda lántaka samkvæmt því. 

Ólöf Guðný Valdimarsdóttir.
Ólöf Guðný Valdimarsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þessu hef ég margmótmælt við LÍN og margsagt að ég sé tilbúin til að greiða þann hluta af útistandandi kröfu sem ég ber ábyrgð á og ekki annað,“ segir Ólöf. 

Segir hún LÍN vísa á einkarekna lögmannsstofu, TCM innheimtu „sem virðist maka krókinn af óförum ábyrgðarmanna og gengur harkalega fram“.

Hótanir um stefnu 

Ólöf réð sér lögmann til að gæta hagsmuna sinna og telur hann ábyrgðina fyrnda og hefur að sögn Ólafar sent umræddri TCM innheimtu rök fyrir meintri fyrningu. 

Segir Ólöf að lögmaður TCM hafi svarað með hótunum um stefnu verði krafan ekki greidd. 

Í samtali við mbl.is segir Ólöf að LÍN hafi neitað að afhenda sér ýmis gögn og komið fram með illu viðmóti. 

„Það má ekki gleyma því að Lánasjóður íslenskra lánsmanna er í eigu ríkisins. Flestir þeir sem standa ekki í skilum við sjóðinn er fólk sem hefur ekki getað fótað sig vel í íslensku samfélagi. Í mínu tilfelli er skuldarinn öryrki á framfærslu ríkisins en er löngu flutt til Spánar og LÍN hirðir ekki einu sinni um að koma bréfunum til viðkomandi en sendir þau á gamalt heimilisfang á Íslandi að þeirra sögn,“ segir Ólöf. 

„Viðmót LÍN er að mínu mati fjandsamlegt og það kom mér á óvart þegar ég fór að óska eftir gögnum að sjóðurinn neitaði hreinlega að afhenda mér öll gögnin. Lánið var komið í vanskil og þar af leiðandi í forsjá TCM, einkarekinnar lögmannsstofu úti í bæ.  Þaðan tókst mér loksins að fá gögn og hef ég margt við þau gögn að athuga.“

Davíð að verja sig fyrir Golíat

Ólöf taldi það besta í stöðunni að ráða lögmann til að gæta réttar síns. 

„Stutta svar LÍN við spurningum og athugasemdum mínum er; „Borgaðu eða þú verður dregin fyrir dóm.” Þetta er mjög öflugt stjórntæki og virkar vel. Ég er ein af mörgum ábyrgðarmönnum á láninu og þar sem sjóðurinn er að rukka alla ábyrgðarmennina tel ég mig bara eiga að greiða hluta af upphæðinni en ekki alla skuldina sem er komin í vanskil. Ég hef margítrekað að ég sé tilbúin til þess. Ég næ engu samtali við LÍN sem bendir bara á Sigurbjörn Þorbergsson hjá TCM, sem gengur hart fram, svo ég brá á það ráð að ráða mér líka lögmann, Vilhjálm Þ. Á. Vilhjálmsson.

„Vilhjálmur fór yfir gögn málsins og hann telur að ábyrgð mín á láninu sé fyrnd og færir fyrir því góð lagaleg rök. Í skilmálum lánsins stendur að skuldarinn skuli byrja að borga af láninu tveimur árum eftir námslok. Því átti að byrja að greiða af láninu árið 2000 en LÍN byrjar ekki að rukka lánið fyrr en 9 árum eftir námslok eða árið 2007. Á meðan hækkar og hækkar ábyrgðin mín, sem er verðtryggð. Ábyrgðin er heldur ekki á nokkurn hátt tengd láninu eða lánsupphæðinni og það kom líka mjög á óvart.“

Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson, lögmaður Ólafar.
Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson, lögmaður Ólafar.

Ólöf segir framgöngu LÍN ámælisverða fyrir margar sakir. 

„Stærsta athugasemd mín er við það að Lánsjóður íslenskra námsmanna skuli vera með sjálfstætt starfandi lögmenn í vinnu og loka dyrum sjóðsins gagnvart fólki sem þarf að eiga við hann samskipti. Lögmennirnir hafa mikilla fjárhagslegra hagsmuna að gæta í að halda málum gangandi og ná þeim sem flestum fyrir dóm. Mér virðist að þeir geti starfað í umboði lánasjóðsins án nokkurs samráðs við stjórn sjóðsins. Mér finnst samskipti mín og lögmanns míns við TCM bera sterkan keim af þessu. Það þarf að mínu mati að gera úttekt á sjóðnum og skoða þessi mál öll.

„Það svarar hvorki kostnaði né tíma fyrir mig að málið fari fyrir dómstóla. Þar er ég, Davíð, að berjast við og verja mig fyrir Golíat, ríkinu, og það kostar sitt fyrir mig. En það svarar réttlætiskennd minni og það varðar ekki bara mína hagsmuni heldur fjölda manns sem eiga margir hverjir erfitt með að verja sig fyrir kerfinu, LÍN og ríkinu,“ segir Ólöf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert