„Fólk er farið að ókyrrast“

Sameyki á 1. maí í ár.
Sameyki á 1. maí í ár. Ljósmynd/Samiðn

Þolinmæðin er á þrotum og við erum farin að tala um aðgerðir. Þetta segir Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis, stéttarfélags í almannaþjónustu, en samningar félagsins við ríkið hafa verið lausir í rúmlega hálft ár. Hann segir lítið hafa komið fram á þeim fundum sem haldnir hafa verið hjá ríkissáttasemjara eftir að deilunni var vísað þangað.

Sameyki varð til við sameininu tveggja félaga; SFR og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og er eitt af aðildafélögum BSRB. Þar eru 11.000 félagar og er félagið, að sögn Árna, þriðja stærsta stéttarfélagið á landinu á eftir Eflingu og VR. Hann segir að meginkröfur félagsins snúist um þrennt; styttingu vinnuvikunnar, jöfnun launa á milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins og útfærslu launaþróunar- eða launaskriðstryggingar.

Árni Stefán Jónsson formaður Sameykis.
Árni Stefán Jónsson formaður Sameykis.

Boðnar 13 mínútur á dag

Varðandi styttingu vinnuvikunnar segir Árni að Sameyki hafi gefið nokkuð eftir. „Í upphafi fórum við fram á 35 klukkustunda vinnuviku, eða 45 mínútur á dag. Ríkið hefur boðið okkur 13 mínútur á dag auk þess að við seljum kaffi- og matartíma. Það finnst okkur ekki koma til greina.“ 

Árni segir að kortlagt hafi verið hver munurinn sé á launum fólks á opinbera og almenna vinnumarkaðnum og niðurstaðan hafi verið að hann væri að meðaltali 16-20%, almenna vinnumarkaðnum í hag. „En hann er á bilinu 9-30% og er minnstur í launalægstu hópunum, mestur hjá þeim sem eru með hæstu launin. Þessu viljum við breyta og brúa þetta bil.“

Þetta tengist svokallaðri launaþróunartryggingu eða launaskriðstryggingu sem Sameyki hefur viljað koma á, en með henni er leitast við halda jöfnuði á milli launa á opinberum og almennum markaði sem mestum. Árni  segir að lítill hljómgrunnur sé hjá viðsemjandanum, ríkinu, til að taka þetta fyrirkomulag upp. 

Verkfallsaðgerðir ræddar á fulltrúaráðsfundi

„Fólk er farið að ókyrrast,“ segir Árni um stöðuna í félaginu og segist hafa orðið berlega var við það á fulltrúaráðsfundi í gærkvöldi þar sem um 90 félagar ræddu stöðuna. „Þar heyrðust háværar kröfur um að taka næsta skref.“

Hvað áttu við með næsta skrefi? „Að skoða hvaða aðgerðum væri hægt að beita.“

Var rætt um verkfallsaðgerðir? „Já, það var eitt af því sem var rætt. “ 

Næsti fundur Sameykis og ríkisins hjá ríkissáttasemjara verður á fimmtudaginn í næstu viku. Áður en til hans kemur munu starfshópar ræða einstök atriði. „Við erum alveg tilbúin til að gefa þessu meiri séns,“ segir Árni. „En ég geri líka ráð fyrir að það komi fljótlega í ljós hvort þetta er alveg stíflað eða hvort við getum náð saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert